Tekist á um nagladekkjasektir á Twitter

„Það er enn vetrarfærð sumstaðar annarsstaðar en í 101 og …
„Það er enn vetrarfærð sumstaðar annarsstaðar en í 101 og margir sem eru á faraldsfæti um páskana,“ sagði í tísti lögreglunnar, sem svaraði gagnrýni Gísla Marteins Baldurssonar á Twitter. mbl.is/Samsett mynd

Nagladekk eru bönnuð á götum landsins frá og með deginum í dag og til 1. nóvember næstkomandi og liggur 80.000 króna sekt við því að aka um á nagladekkjum á banntímabílinu, séu öll fjögur dekkin undir bílnum negld.

Lögregla er þó ekki enn byrjuð að sekta fyrir nagladekkjanotkunina og er það í takt við það sem verið hefur undanfarin ár, en í fyrra tilkynnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að ekki yrði byrjað að sekta fyrir notkun nagladekkja fyrr en 15. maí.

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lýsti því í samtali við mbl.is í morgun að lögreglan byrjaði ekki strax að sekta vegna orðalags í reglugerð „um að dag­setn­ing­in falli úr gildi ef akst­urs­skil­yrði krefjast vetr­ar­búnaðar.“ Lögregla horfi þá til veðurspár um allt land, við að meta hvenær byrja skuli að sekta.

Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður sagði á Twitter-síðu sinni í dag það græfi undan trausti á lögreglunni ef það væri matsatriði hvort að það ætti að framfylgja lögum. Hann bætti því svo við, að naglar drepi fleiri en þeir bjarga og vísar til þess að tugir látist árlega á Íslandi vegna svifryks sem væri aðallega tilkomið vegna nagladekkjanotkunar.

Lögreglan svaraði Gísla Marteini á Twitter og sagði ekki bannað að vera á nöglum núna ef færi krefðist þess. „Það er enn vetrarfærð sumstaðar annarsstaðar en í 101 og margir sem eru á faraldsfæti um páskana,“ sagði í tísti lögreglunnar.

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, blandaði sér þá í umræðuna og sagði að sér þætti „óþægilegt“ að lögregla tiltæki sérstaklega póstnúmer miðborgarinnar í tísti sínu. Sagði hann tístið „gríðarlega gildishlaðið.“

Lögregla sagði að svo hefði alls átt að vera, en hins vegar væri það erfitt þegar lögreglu væri gert upp að vera ekki að sinna starfi sínu með réttum hætti.

„Hagsmunir og þarfir fólks eru misjöfn, stundum fer það eftir búsetu. Lögreglan reynir að fara skynsamlegan milliveg,“ sagði í svari lögreglu og því bætt við í öðru tísti að reynslan kenndi lögreglu að á þessum árstíma geti skapast aðstæður þar sem nagladekkja er þörf.

Gísli Marteinn gaf þó lítið fyrir þau svör, eins og lesa má hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert