Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur í samræmi við nýtt skipurit félagsmálaráðuneytisins skipað þrjá nýja skrifstofustjóra til starfa í ráðuneytinu: Ernu Kristínu Blöndal yfir skrifstofu barna- og fjölskyldumála, Gunnhildi Gunnarsdóttur yfir skrifstofu húsnæðis- og lífeyrismála og Bjarnheiði Gautadóttur yfir skrifstofu vinnumarkaðar og starfsendurhæfingar.
Ákvörðun ráðherra er í samræmi við mat sérstakrar hæfnisnefndar sem skipuð var til að meta hæfi umsækjenda, að því er segir á vef Stjórnarráðsins.
Erna Kristín Blöndal nýr skrifstofustjóri barna- og fjölskyldumála tekur við embætti 1. maí næstkomandi. Hún er með BA- og meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og stundar doktorsnám í lögfræði á sviði mannréttindamála við sama skóla. Erna Kristín hefur víðtæka reynslu af opinberri stjórnsýslu og stjórnunarstörfum. Hún starfaði sem lögfræðingur og verkefnastjóri hjá innanríkisráðuneytinu (nú dómsmálaráðuneytinu) frá 2009 - 2016. Frá 2014 var hún sérfræðingur þverpólitískrar þingmannanefndar um endurskoðun útlendingalaga og framkvæmdastjóri norrænnar stofnunar um fólksflutninga frá 2016-2018. Síðastliðið ár hefur hún starfað sem verkefnastjóri hjá félagsmálaráðuneytinu og leitt vinnu sem lýtur að endurskoðun barnaverndarlaga og innleiðingu á snemmtækri íhlutun.
Gunnhildur Gunnarsdóttir nýr skrifstofustjóri húsnæðis- og lífeyrismála tekur við embætti 1. júní næstkomandi. Hún er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands frá árinu 1992 og hlaut réttindi til að starfa sem héraðsdómslögmaður árið 1995. Gunnhildur hefur mikla reynslu af stjórnun og starfsmannahaldi ásamt víðtækri þekkingu á sviði opinberrar stjórnsýslu. Hún gegndi stjórnarstörfum hjá Íbúðalánasjóði á árum 1999 – 2016 og var lengst framkvæmdastjóri lögfræðisviðs. Gunnhildur hefur að undanförnu gengt starfi lögfræðings hjá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar.
Bjarnheiður Gautadóttir hefur frá janúar 2019 verið staðgengill setts skrifstofustjóra á skrifstofu lífskjara og vinnumála og verið settur skrifstofustjóri á skrifstofu vinnumarkaðar og starfsendurhæfingar frá febrúar 2019. Hún verður formlega sett í embætti 1. maí næstkomandi. Bjarnheiður er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands frá árinu 2006. Hún hefur starfað sem sérfræðingur á sviði vinnumarkaðsmála í félagsmálaráðuneytinu (áður velferðarráðuneytið/félags- og tryggingamálaráðuneytið) frá 2006. Bjarnheiður hefur meðal annars haft umsjón með innleiðingu tilskipana frá Evrópusambandinu og leitt nefndir og vinnuhópa í tengslum við gerð lagafrumvarpa og reglugerða í samvinnu við hagsmunaaðila. Eins tekið þátt í starfi norrænnar nefndar á sviði vinnuréttar.
Skipað er í embætti skrifstofustjóra til fimm ára í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að því er fram kemur í tilkynningunni.