Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og starfandi dómsmálaráðherra, segir að sumir hópar hafi viljandi verið að afvegaleiða umræðuna í tengslum við þriðja orkupakkann.
Í viðtali við Loga Bergmann Eiðsson á útvarpsstöðinni K100 sagði hún að hópar hafi notað tilfinningar til að „keyra upp sinn málstað“. Sjónarmiðum hafi verið haldið á lofti þar sem menn viti betur, til dæmis um að með innleiðingu orkupakkans sé verið að framselja valdheimildir umfram það sem stjórnarskráin leyfir, að hingað verði lagður sæstrengur sem muni hækka raforkuverð mikið og að verið sé að veita ESB heimild til að „krukka í okkar auðlindum“ varðandi virkjanir.
Hún sagði ekki heiðarlegt að halda fram þessum rökum sem séu ekki byggðar á staðreyndum heldur tilfinningum. „Sumir þeirra sem fara fram eru viljandi að gera það,“ sagði hún.