Páskarnir eru tími sem fólk nýtir gjarnan í ferðalög um landið. En hvert liggur straumur Íslendinga í páskafríinu?
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Air Iceland Connect, segir í samtali við Morgunblaðið að straumurinn liggi út um allt land um páskana en mikið er um flug vestur, norður og austur. Einnig finnst honum vera meiri spurn en áður eftir því að komast út á land á skíði. Lokað sé í Bláfjöllum og því virðist enn fleiri leggja leið sína á skíðasvæðin á Norður- og Austurlandi.
Samkvæmt upplýsingum frá Ferðafélagi Íslands eru flestir Íslendingar á þeirra vegum að fara í gönguferðir á Snæfellsjökul sem er gríðarlega vinsæl á þessum tíma. „Fólk bíður í röðum eftir að fá að komast með,“ segir Heiðrún Ólafsdóttir, verkefnisstjóri hjá félaginu.
Ferðafélag Íslands er einnig með skála víða á hálendi Íslands, meðal annars í Landmannalaugum, en Heiðrún segir að lítil aðsókn sé í þá eins og er. Segir hún að veðrið og færðin hafi þar mikil áhrif. Fólk hafi þurft að afbóka og skálunum verið lokað.
Páll Gíslason, framkvæmdastjóri Fannborgar sem rekur ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum, segir nánast enga aðsókn vera að ferðalögum um hálendið um páskana. Hann segist finna fyrir því að hefðin fyrir því að fólk fari á fjöll um páska hafi minnkað.