Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, minntist á eldsvoðann í Notre Dame-kirkjunni í París og þau David Attenborough og Gretu Thunberg í páskapredikun sinn í Dómkirkjunni í morgun.
Í predikun sinni sagði Agnes að fyrir fagmennsku og þrautseigju slökkviliðsmanna hafi tekist að koma í veg fyrir algjöra eyðileggingu kirkjunnar og að forseti Frakklands hefði síðar lýst því yfir að auðmenn hafi heitið fé til endurgerðar kirkjunnar.
„En þá reis upp mikil reiði meðal almennings sem taldi að velgjörðarmennirnir hefðu annað í huga en eintóma gæsku við dýrt verkefni. Ég hef fyrir hönd þjóðkirkjunnar sent sendiherra Frakklands hér á landi samúðarkveðju vegna brunans og tek undir hvatningu þess efnis að við öll sem unnum kirkju og kristni styrkum endurreisn þessa mikla guðshúss,“ sagði hún.
Agnes talaði um yfirlýsingu sjónvarpsmannsins Davids Attenborough vegna loftslagsbreytinganna sem ógna heiminum og sagði að nú verði að takast á við vandann. Fólk þurfi að breyta um lífsstíl.
„Vísindamenn hafa frætt okkur um að nú verði að breyta um stefnu eigi lífið að sigra eyðileggingu jarðar og dauða lífs á jörðu. Nú er komið að siðferðinu, hugarfarinu, lífsstefnunni. Það er komið að því að við jarðarbúar verðum að breyta um lífsstíl. Allar fræðigreinar geta hjálpað okkur við það verkefni. Kristin trú getur hjálpað okkur við það verkefni vegna þess að kristin trú er trú vonar og kærleika. Hún er trú hugarfarsins sem eru grunnur verkanna. Hún er trú ábyrgðar gagnvart öllu því sem skapað er. Hún er trú ljóssins og lífsins.“
Biskup minntist einnig á hina 16 ára Gretu Thunberg sem hefur barist fyrir aðgerðum í loftslagsmálum. „Hvað er nauðsynlegt, hvað er gagnlegt, hvað er forgangsverkefni? Við höfum eflaust mismunandi skoðanir á því en um loftslagsbreytingarnar eru aðeins eitt svar, þær eru staðreynd og eru farnar að hafa áhrif á allt líf á jörðinni, líka hér á landi.“
Agnes talaði einnig um að íslenska þjóðkirkjan sé að takast á við álíka áskoranir og systurkirkjurnar í Skandinavíu og á meginlandi Evrópu. Skráðum meðlimum og skírnum fækki en þátttöku í athöfnum standi að miklu leyti í stað.
„Kirkjuskipanin í borginni er byggð upp á sama máta og kirkjuskipanin á landsbyggðinni en áskoranirnar eru ólíkar í þéttbýlinu og dreifbýlinu. Okkar lúterska kirkja hefur aðeins einn leiðtoga, þann er reis upp á þriðja degi en talsmenn hennar eru margir þó biskupinn leiði þann fríða flokk,“ sagði hún.