Lóðsinn mældi dýpið í Landeyjahöfn síðdegis í gær. Á mælingunni má sjá að talsvert af sandi hefur safnast aftur fyrir á milli hafnargarðanna, sem og innan hafnar. Dýpið er nú minnst um 3,7 metrar en Herjólfur ristir 4,2 metra. Þetta kemur fram á vef Eyja.
Þar kemur fram að ljóst sé á þessari mælingu að Björgun þarf einhverja daga til dýpkunar á svæðinu, en Dísa, dýpkunarskip Björgunar er enn við bryggju í Eyjum þrátt fyrir að skilyrði hafi verið síðan í gærkvöldi til dýpkunar á svæðinu.
Samkvæmt ölduspánni á að vera hægt að dýpka höfnina til miðvikudags, en þá á ölduhæðin að hækka aftur til skamms tíma.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri segir í samtali við Eyjar.net að staðan sé afleidd. „Við erum komin í síðustu viku apríl-mánaðar og enn bíðum við þess að höfnin opni. Það er sérstaklega bagalegt þegar að gluggi opnast til dýpkunar - þá eru menn ekki einu sinni á tánum - tilbúnir með áhöfn. Þá lá fyrir að ölduspáin færi niður í gær, og því engin afsökun að vera ekki með allt klárt eftir brælustopp í á aðra viku. Okkur er hreinlega haldið hér í gíslingu”. segir Íris.
Lárus Dagur Pálsson, framkvæmdastjóri Björgunar, segir á vef Björgunar í svari frá því í mars:
„Vegna umræðu um framgang dýpkunar við Landeyjahöfn og þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á fyrirtækið að undanförnu er eftirfarandi komið á framfæri.
Frá því viðhaldsdýpkanir fyrir Landeyjahöfn 2019–2021 voru boðnar út í haust og gengið til samninga við Björgun um verkefnið hafa ýmsir gagnrýnt Vegagerðina harkalega. Þá hafa einhverjir valið að gagnrýna Björgun fyrir frammistöðu við dýpkanir á þeim árum sem fyrirtækið og starfsmenn þess sáu um verkefnið. Síðustu daga hafa Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja, Páll Magnússon þingmaður og fleiri lýst vonbrigðum með framgang dýpkunarinnar og um leið hafa komið fram rangfærslur, samanburður við fyrri verktaka og fullyrðingar sem hvorki standast né eru málefnalegar.
Af umræðu í kjölfar fyrrnefnds útboðs má draga þá ályktun að lítið samráð hafi verið haft við heimamenn í Eyjum um þjónustustig vegna siglinga í Landeyjahöfn og tilhögun verksins sem Vegagerðin bauð út. Þar má til dæmis nefna að ekki var farið fram á að skip verktaka kæmu að dýpkunum yfir vetrarmánuðina þegar aðstæður gefast. Það olli greinilega miklum vonbrigðum.
Mjög eðlilegt er að Vestmannaeyingar vilji að Landeyjahöfn nýtist fyrir siglingar allt árið um kring en frá upphafi hefur höfnin ekki staðist slíkar væntingar. Fjárfesting í nýjum Herjólfi, nýframkvæmdir við höfnina, dælubúnaður á landi og áframhald viðhaldsdýpkana með dæluskipum koma vonandi til með að bæta þessar samgöngur og auka tíðni siglinga. Enginn breytir þó stöðu landsins, veðri, sjávarföllum eða stýrir sandburði. Aðstæðurnar eru og verða krefjandi.
Vegna umræðu um stöðu og framgang dýpkunarframkvæmda nú í mars og eftir mælingar Vegagerðarinnar þann 18. mars bendir Björgun á að samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Vegagerðarinnar hefur Herjólfur áður siglt um höfnina við það dýpi. Eðlilega er það samt undir stjórnendum Herjólfs komið hvenær siglt verður til Landeyjahafnar.
Þá daga sem gefist hafa til dýpkunar það sem af er marsmánuði hefur áhöfn dýpkunarskipsins Dísu dælt tæplega 30 þúsund rúmmetrum úr höfninni. Afkastagetan er í samræmi við uppgefnar forsendur í tilboðsgögnum. Frátafir hafa verið verulegar vegna ölduhæðar, öldulengdar og dýpis miðað við stöðu sjávarfalla. Dýpkun hefur alls staðið í 136 klst., þar sem mesta ölduhæð var 2,3 metrar.
Gröfupramminn Reynir og efnisflutningapramminn Pétur Mikli eru til taks í Þorlákshöfn og verður Reynir dreginn í Landeyjahöfn um leið og aðstæður leyfa. Fráleitt er að halda því fram að nú hafi Vegagerðin forsendur til riftunar á verksamningnum við Björgun. Vísað hefur verið til þess að á sama tíma í fyrra hafi skip Jan De Nul staðið sig betur og höfnin verið opnuð fyrr. Gögn um ölduhæð sýna að aldan var undir 1,3 metrum í 191 klukkustund 2.-12. mars 2018. En frá 6. til 18. mars á þessu ári hafa þær aðstæður aðeins varað í 46 klukkustundir. Á þessu er mikill munur og því rangt að halda því fram að aðstæður hafi verið prýðilegar í 10 daga eins og Páll Magnússon kallar það. Rétt er að tillit sé tekið til aðstæðna og að virðing sé borin fyrir mati skipstjórnarmanna á aðstæðum hverju sinni.
Björgun stóðst samanburð við hollenska fyrirtækið Jan De Nul samkvæmt útboðsgögnum. Hollenska fyrirtækið var vissulega með stærra skip að störfum við dýpkunina, en Björgun hefur hins vegar fleiri skip og mjög mikil afköst þegar skilyrði eru fyrir hendi. Páll Magnússon fullyrti á alþingi að skip Jan De Nul væri fimm sinnum stærri og því haldið að skipið skilaði þar með fimm sinnum meiri afköstum, en samkvæmt áreiðanlegum gögnum er það fjarri lagi. Skylt var að gefa upp afkastagetu í útboðsgögnum þó öðru sé haldið fram.
Björgun leggur metnað í að opna Landeyjahöfn sem allra fyrst. Starfsmenn Björgunar hafa mikla reynslu við dýpkanir og þekkingu á aðstæðum í Landeyjahöfn og gera sitt besta. Eðlilegt er að ætlast til þess að þeir sem láta sig málið varða, sér í lagi kjörnir fulltrúar fari ekki fram úr sér í umræðunni með rangfærslum og niðrandi ummælum.“