Bílvelta varð á þjóðveginum sunnan við Æsustaði í Langadal, skammt vestan við Húnaver, á tíunda tímanum í kvöld. Óskað hefur verið eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar sem er á leiðinni á slysstað. Búið er að loka þjóðveginum og er hjáleið um Þverárfjallsveg.
Hringvegur (1) er lokaður tímabundið við Húnaver vegna umferðaróhapps. Hjáleið er um Þverárfjallsveg (744) #færðin #Lokað
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) April 23, 2019
Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst ósk um aðstoð frá lögreglunni á Norðurlandi vestra klukkan 21:41 vegna alvarlegs umferðarslyss. Þyrlan er lögð af stað og er væntanleg á slysstað rétt fyrir klukkan 23.
Þá er björgunarlið frá lögreglu og sjúkraliði á vettvangi, auk björgunarsveitarmanna sem sjá um lokanir á þjóðveginum og beina umferð um Þverárfjallsveg.
Uppfært klukkan 23:13:
Þyrla Landhelgisgæslunnar er komin á vettvang og mun hún flytja ökumann bílsins, sem er alvarlega slasaður, á Landspítalann í Fossvogi.
Ingvar Sigurðsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Austur-Húnavatnssýslu, segir í samtali við mbl.is að um alvarlegt slys sé að ræða og því gætu aðgerðir á vettvangi staðið lengi yfir, með tilliti til rannsóknarhagsmuna. „Það er enginn asi á að loka vettvangi,“ segir Ingvar, og bendir á að hjáleið sé um Sauðárkrók.
Þá segir hann aðstæður á slysstað með ágætum, 7-10 metrar á sekúndu en frekar bjart og háskýjað og um 10 stigi hiti.
Uppfært klukkan 00:02:
Opnað hefur verið umferð á ný um þjóðveginn um Vatnsskarð við Húnaver.
Búið er að opna hringveg (1) um Vatnsskarð. #færðin #lokað https://t.co/hI0zxGOMRM
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) April 23, 2019