Næsta mánuðinn verður ekki hægt að komast upp í Hallgrímskirkjuturn þar sem verið er að skipta um lyftu í turninum. Allt að þúsund manns fara upp í turninn á degi hverjum á þessum árstíma og þeir sem ætluðu upp í dag þurftu því frá að hverfa.
Það örlaði á gremju hjá einhverjum sem komust ekki í fyrirhugaða útsýnisferð að sögn Sigríðar Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Hallgrímskirkju. Hún segir þó að stefnt sé á að opna að nýju 28. maí og að allt útlit sé fyrir að þær áætlanir standist.
„Það er unnið hérna allan sólarhringinn meðan á framkvæmdum stendur vegna þess að við vildum taka sem stystan tíma í þetta. Bæði ferðamannanna vegna og okkar vegna. Það er allra hagur að þetta gangi sem best,“ sagði Sigríður í samtali við mbl.is fyrr í dag.
Nýja lyftan verður með meiri lofthæð en hún verður einnig hraðari. Sú gamla fór einn metra á sekúndu á meðan sú nýja mun ferðast 1,6 metra á sekúndu.