Embætti landlæknis flytur starfsemi sína frá Heilsuverndarstöðinni á Barónsstíg á Rauðarárstíg 10. Um er að ræða tímabundið húsnæði fyrir starfsemina en mygla í húsnæði embættisins á Barónsstíg er ástæða flutninganna.
Embættið flytur starfsemi sína á Rauðarárstíg 29. apríl næstkomandi og því verður embættið lokað þann dag. Opnað verður á nýjum stað þriðjudaginn 30. apríl að Rauðarárstíg 10, 2. hæð. Afgreiðslan er opin kl. 10:00-16:00.
Framkvæmasýsla ríkisins auglýsti eftir framtíðarhúsnæði fyrir embætti landlæknis þann 5. apríl síðastliðinn.
Óháður matsmaður sem skoðaði húsnæði embættis landlæknis við Barónsstíg vegna gruns um myglu skilaði áliti sínu í byrjun apríl. Alma D. Möller, landlæknir, kvaðst þá ekki geta tjáð sig um innihald skýrslunnar og að á næstu vikum myndi skýrast hver næstu skref yrðu í húsnæðismálum embættisins.
Ágreiningur er milli landlæknisembættisins og eiganda hússins um orsakir myglunnar. Fyrrnefndur matsmaður er sá þriðji sem kallaður er til að rannsaka húsnæðið með tilliti til rakaskemmda og myglu. Áður höfðu bæði eigandi húsnæðisins og landlæknisembættið fengið fyrirtæki til þess að rannsaka húsnæðið og þær niðurstöður stönguðust á.
Þriðjungur starfsmanna landlæknisembættisins hefur fundið fyrir áhrifum myglu í húsnæðinu að Barónsstíg. Þeir þurftu ýmist að færa starfsstöðvar innanhúss eða flytja í aðrar byggingar. Hafa nokkrir starfsmenn embættisins fengið starfsstöð í heilbrigðisráðuneytinu.