Utanlandsferðum fjölgar

Gistinætur erlendis voru að meðaltali 20 nætur á árinu 2018.
Gistinætur erlendis voru að meðaltali 20 nætur á árinu 2018. mbl.is/Eggert

Hlutfall Íslendinga sem ferðast utan hefur farið stigvaxandi frá árinu 2009 þegar aðeins 44% Íslendinga fóru í utanlandsferð, en árið 2018 ferðuðust 83% landsmanna utan og var meðalfjöldi utanlandsferða 2,8.

Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar Ferðamálastofu um ferðalög Íslendinga 2018 og ferðaáform á árinu 2019, en sambærileg könnun hefur verið framkvæmd árlega frá 2009. 

Gistinætur erlendis voru að meðaltali 20 nætur á árinu 2018, en það eru einni nótt fleiri en árið áður. Flestir fóru í borgarferð, næstflestir í sólarlandaferð, en þar á eftir komu heimsóknir til vina og ættingja erlendis og þá vinnuferðir. Vinsælast var að heimsækja Spán eða Portúgal, en þangað fóru 41,5% svarenda.

Um 85% Íslendinga ferðuðust innanlands árið 2018, en þeim hefur fækkað frá 2009. Að jafnaði fóru landsmenn í 6,2 ferðir innanlands og dvöldu 12,9 nætur. Norðurland var vinsælasti áfangastaður landsmanna í ferðalögum innanlands, og Suðurland kom þar á eftir.

Rúmlega níu af hverjum tíu stefna á ferðalög í ár

Rúmlega níu af hverjum tíu stefna á ferðalög á árinu 2019, 55% sögðust ætla í sumarbústaðarferð, 52,6% í borgarferð erlendis, 45,7% í heimsókn til vina og ættingja innanlands, 43,5% í sólarlandaferð og 34,7% í heimsókn til vina og ættingja erlendis.

Könnunin var unnin af MMR og svöruðu 1.024 einstaklingar á aldrinum 18 til 80 ára úr 18.000 manna úrtaki. Nú var í fyrsta sinn spurt um ástundun útivistar og reyndist um helmingur Íslendinga stunda útiveru einu sinni í viku eða oftar árið 2018.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert