Í Múlakoti í Fljótshlíð, skammt frá Hvolsvelli, geymir Erling Jóhannesson gamla flugvél sem á sér merka sögu. Hún er af gerðinni Boeing/Stearman PT-17 Kaydet og ber einkennisstafina TF-KAU. Þetta er elsta flughæfa vél á Íslandi, nærri áttatíu ára gömul.
Fyrir rúmum mánuði var greint frá því hér í blaðinu að tekist hefði að staðsetja flak bandaríska flugmóðurskipsins USS Wasp í Kóralhafinu. Skipinu var grandað af japönskum kafbáti haustið 1942 og fórst stór hluti skipverja, 166 manns, en nokkrum var bjargað um borð í önnur bandarísk herskip á svæðinu. Wasp tengist íslenskri sögu því það var hér við land um tíma á stríðsárunum í flotadeild sem gætti kaupskipa er sigldu um Norður-Atlantshafið á milli Bretlands og Bandaríkjanna.
Í ágúst 1941 flutti USS Wasp alls 30 bandarískar orrustuflugvélar af gerðinni P-40 og þrjár æfingaflugvélar 33. flugsveitar Bandaríkjamanna til Íslands. Þá voru þeir að taka við hervernd landsins úr höndum Breta. Þessar flugvélar tóku á loft frá flugmóðurskipinu undan Reykjanesi og lentu á hinum nýbyggða Reykjavíkurflugvelli.
TF-KAU í Múlakoti er ein þessara þriggja æfingaflugvéla, tvíþekja sérsmíðuð til æfinga- og kennsluflugs fyrir bandaríska herinn, að því er fram kemur í umfjöllun um þessa merku flugvél í Morgunblaðinu í dag.