Hitamet sumardagsins fyrsta í Reykjavík féll í hádeginu, þegar hitamælir Veðurstofu Íslands sýndi 14,1 stig. Fyrra met var frá árinu 1998, en þá mældist hiti hæstur 13,5 stig á sumardaginn fyrsta.
„Í morgun reis sól í gegnum rykmistur ættað frá Sahara-eyðimörkinni
og bauð sumarið velkomið. Blessuð sólin sást þó ekki eins vel í Reykjavík og spáð var í gær og er þar líklega afríska rykmistrinu um að kenna, en svifryk mælist meira en venjulega,“ segir í færslu á Facebook-síðu Veðurstofunnar.
Hæglætisveður hefur verið á landinu öllu í dag og víða sást vel til sólar. Í dag má búast við austlægri átt, 3-10 metrum á sekúndu, en 10-15 syðst. Þegar kvölda tekur má búast við að það þykkni upp sunnan og austan til á landinu, en þar fer að rigna í kvöld. Víða mun stytta upp í fyrramálið, en aftur verður rigning með köflum síðdegis og heldur svalara en í dag.