Hátíðarhöld fara víða fram í dag, sumardaginn fyrsta, og skrúðgöngur eru iðulega hluti af slíkri dagskrá. Ljósmyndari mbl.is var í Árbænum í Reykjavík í morgun þar sem fríður flokkur skáta leiddi gönguna að vanda undir blaktandi íslenskum fánum.
Sumardagurinn fyrsti er á fimmtudegi á bilinu 19. til 25. apríl. Um fyrsta sumardag er getið þegar í elstu heimildum samkvæmt upplýsingum frá Þjóðminjasafninu. Sumargjafir eru þekktar frá 16. öld segir á vef safnsins og eru miklu eldri en jólagjafir.
Voru hér áður ekki unnin önnur en nauðsynjastörf eða táknræn sumarstörf á sumardaginn fyrsta og börn nýttu daginn til leikja. Var víða messað á sumardaginn fyrsta fram á miðja 18. öld en húslestrar á heimilum héldust hins vegar mun lengur.
Samkomur í sveitum og bæjum í tilefni af sumardeginum fyrsta hófust seint á 19. öld og eftir aldamótin 1900 tengdust þær ungmennafélögunum. Frá þriðja áratug síðustu aldar hefur dagurinn verið helgaður börnum með skrúðgöngum og skemmtunum.
Þá tengist ýmis þjóðtrú sumarkomu eins og þekkt er og er meðal annars talið vita á gott ef sumar og vetur frjósa saman aðfaranótt sumardagsins fyrsta.