Hælisleitendur báðu ráðherra um að „gefa sér tækifæri“ á fundi Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakkann í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands sem jafnframt er starfandi dómsmálaráðherra sat fundinn ásammt Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. Fréttablaðið greindi fyrst frá þessu.
Villhjálmur Þorsteinsson tók atvikið upp á myndband en það hefur vakið mikla athygli. Þar sést Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, reyna að stilla til friðar en fundurinn var haldinn af Sjálfstæðisfélögum í Kópavogi og í Garðabæ og voru Þórdís og Guðlaugur þar til að ræða við flokksmenn um þriðja orkupakkann.
„Ég veit ekki nákvæmlega hverju þeir voru að reyna að ná fram en það er nokkuð ljóst að þetta var ekki efni fundarins. Ég tók það skýrt fram áður en spurningar hófust að það ætti eingöngu að spyrja um þriðja orkupakkann. Þetta kom mér allt saman í opna skjöldu,“ segir Ármann í samtali við mbl.is.
Hælisleitendurnir óskuðu eftir því að fá að spyrja ráðherra spurninga um sín málefni en Ármann bað þá ítrekað um að „fá sér vinsamlegast sæti“. Menn á fundinum tóku málin í sínar eigin hendur og sagði Ármann þá vera lögreglumenn. „Við ætlum ekki að hringja í lögregluna því þessir herramenn þarna eru lögreglan.“
Mennirnir voru þó ekki einkennisklæddir en Ármann segir í samtali við mbl.is að þeir hafi báðir starfað sem lögreglumenn áður fyrr.
„Ég hefði auðvitað átt að taka það fram að þeir væru fyrrverandi lögreglumenn. Mér gekk það eitt til að róa alla og ég gat ekki hugsað mér að fá lögregluna í fullum skrúða inn á fundinn. Þetta gekk einfaldlega út á það að leysa þetta eins rólega og unnt væri.“
Annar mannanna greip í annan hælisleitendanna þegar þeir neita að yfirgefa svæðið og hækkar róminn þegar hann segir: „farðu út núna“.
Ármann segir í myndbandinu að fundinum yrði slitið ef ekki yrði farið eftir settum reglum. Ekki kom til þess og Ármann segir í samtali við mbl.is að mennirnir hafi setið út fundinn og annar talað við hann eftir á. „Sá sem talaði baðst afsökunar á því að hafa notað þennan vettvang svo við skildum í góðu.“