Verði frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur dómsmálaráðherra að lögum munu ærumeiðingar ekki lengur verða hluti af almennum hegningarlögum heldur sett í sérlög. Þannig varði ærumeiðingar ekki lengur refsingum.
„Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný stofnlög um ærumeiðingar þar sem mælt verði fyrir um einkaréttarleg úrræði til að bregðast við ærumeiðingum,“ segir í greinargerð með frumvarpinu og ennfremur að gert sé ráð fyrir tvenns konar úrræðum, annars vegar miskabótum og hins vegar bótum fyrir fjártjón.
„Þannig heimila lögin að láta þann sem með saknæmum og ólögmætum hætti meiðir æru einstaklings með tjáningu greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Með sömu skilyrðum skal dæma bætur fyrir fjártjón ef því er að skipta.“
Ennfremur segir að með frumvarpinu sé meiðyrðalöggjöfin aðlöguð að þeim sjónarmiðum sem séu ríkjandi varðandi túlkun tjáningarfrelsisákvæða samkvæmt stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Um leið sé þeim sem verði fyrir ærumeiðingum tryggð virk úrræði til samræmis stjórnarskrána og mannréttindasáttmálann.