Upphlaupið á fundinum var óþægilegt

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert

Það upphlaup sem var á fundi Sjálfstæðisflokksins í gær kom öllum í opna skjöldu. Það er óheppilegt að menn sem á fundinum voru hafi ætlað að taka sér lögregluvald.

Þetta sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar og starfandi dómsmálaráðherra, í Silfrinu í dag þegar hún var spurð út í atburðina sem áttu sér stað á fundi flokksins um þriðja orkupakkann í gær.

Á fundinum, sem haldinn var í Salnum í Kópavogi, voru hælisleitendur sem óskuðu eftir því að fá að spyrja Þórdísi og Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem einnig sat fundinn, um sín málefni. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi sem stýrði fundinum, bað þá hælisleitendurna ítrekað að fá sér sæti, áður en menn á fundinum tóku málin í sínar eigin hendur og sögðust vera lögreglan. Voru þeir ekki einkennisklæddir og í ljós kom að þeir höfðu áður fyrr starfað sem lögreglumenn.

Aðspurð um málið sagði Þórdís, sem æðsti yfirmaður lögreglunnar í starfi dómsmálaráðherra, að það hafi verið óheppilegt.

„Auðvitað getur enginn tekið að sér lögregluvald sem ekki hefur lögregluvald. Þarna komu upp aðstæður sem komu öllum í opna skjöldu. Við vorum búin að eiga góðan fund og það þurfti að halda stjórn á fundinum. Þetta var óþægilegt. Lögreglan var á staðnum þó hún hafi ekki verið þarna inni. Það langar engan að fá lögreglumenn í búningum og grípa til aðgerða á einhverjum fundi. Auðvitað getur enginn tekið að sér slíkt vald,“ sagði Þórdís.

Fundurinn var sem áður segir um þriðja orkupakkann sem hefur verið mikið til umræðu, en sú umræða sagði Þórdís að litist af rangfærslum.

„Að halda því fram að þetta snúi að einkavæðingu Landsvirkjunar eða sölu á auðlindum eru bara hrein ósannindi. Það eru takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga með slíkan boðskap án þess að honum sé svarað.“

Þórdís Kolbrún Reykjafjörð Gylfadóttir tók við lyklavöldum í dómsmálaráðuneytinu af …
Þórdís Kolbrún Reykjafjörð Gylfadóttir tók við lyklavöldum í dómsmálaráðuneytinu af Sigríði Á. Andersen í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ítrekaði tímabundna stöðu sína í dómsmálum

Þórdís ítrekaði það jafnframt í viðtalinu í Silfrinu að hún liti á það sem tímabundna ráðstöfun að gegna embætti dómsmálaráðherra, en hún tók við þegar Sigríður Á. Andersen steig til hliðar í síðasta mánuði vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu sem fjallaði um skipun dómara við landsrétt.

„Ég stend við það að staða mín í dómsmálaráðuneytinu er tímabundin og ég mun vilja halda áfram í mínu ráðuneyti,“ sagði Þórdís og vísaði í störf sín í iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.

Hún sagði að þar til yfirdeild Mannréttindadómstólsins tæki áfrýjun dómsins fyrir yrðu engar ákvarðanir teknar varðandi Landsrétt og mögulegar breytingar á dómaraskipan. Hæstiréttur hafi úrskurðað að dómarar við Landsrétt væru lögmætt skipaðir og sagði Þórdís að dómararnir sjálfir meti sitt hæfi.

„Vonandi fáum við svar um það sem fyrst, hvort það verði tekið fyrir eða ekki [af yfirdeild MDE]. Heilt yfir eru litlar líkur á því, en eðli þessa máls er þannig að ég held að það verði tekið fyrir,“ sagði Þórdís Kolbrún í Silfrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert