„Neikvæðar afleiðingar“ markmið ESB

Skúli Magnússon, héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, á …
Skúli Magnússon, héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um þriðja orkupakka Evrópusambandsins. mbl.is/Eggert

„Þetta samstarf snýst um það að menn kyngi því súra með því sæta,“ sagði Skúli Magnússon, héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis í morgun þar sem hann ræddi um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem til stendur að innleiða hér á landi fallist þingið á að aflétta af fálinu stjórnskipulegum fyrirvara. Skúli ritaði álitsgerð fyrir utanríkisráðuneytið um þriðja orkupakkann.

Skúli sagðist telja innleiðingu þriðja orkupakkans nauðsynlega vegna alþjóðasamstarfs sem Ísland tæki þátt í og vísaði þar til EES-samningsins. Hafnaði hann því að eitthvað í þriðja orkupakkanum skyldaði íslensk stjórnvöld til þess að samþykkja lagningu sæstrengs til Evrópu. Sagðist hann ennfremur telja að löggjöfin stæðist þann mælikvarða sem hefði verið mótaður af fræðimönnum til þess að meta hvort löggjöf sem kæmi frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn færi í bága við stjórnarskrána. Þar væri hann hins vegar ekki alfarið á sama máli og Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst landsréttarlögmaður.

Þannig sagðist Skúli þeirrar skoðunar að framsal valds til evrópskra stofnana í gegnum þriðja orkupakkann væri „býsna vel“ skilgreint og ekki of íþyngjandi. Engu að síður lægi fyrir að löggjöfin beindist að mikilvægum og viðkvæmum hagsmunum íslenska ríkisins. „Þetta er ekki eitthvað smælki sem við afgreiðum bara í einhverri léttúð.“ Skúli sagðist ennfremur, ólíkt Stefáni og Friðrik, telja að skilyrði um jafnræði og gagnkvæmi uppfyllt. Að minnsta kosti ekki með lakari hætti en fælist í EES-samningnum sjálfum.

„Það geta ekki verið tveir skipstjórar á sama skipi“

Hins vegar sagði Skúli ljóst að „pólitísk slagsíða“ væri á EES-samningnum sem fælist meðal annars í því að að Íslandi og öðrum EFTA/EES-ríkjum væri gert að taka einhliða upp löggjöf frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn sem þau hefðu mjög takmarkaða möguleika á að fjalla um. Markmið EES-samningsins væri einsleitni. Fyrir vikið ætti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að fylgja úrskurðum framkvæmdastjórnar sambandsins og EFTA-dómstóllinn ætti að horfa til dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins sem hann og gerði.

Frá fundinum í morgun. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, …
Frá fundinum í morgun. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, Gunnþóra Elín Erlingsdóttir nefndarritari, Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Smári McCarthy, þingmaður Pírata og Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG. mbl.is/Eggert

Varðandi ACER, sérstaka eftirlitsstofnun Evrópusambandsins á sviði orkumála, sem þriðji orkupakkinn kveður á um sagði Skúli: „Það geta ekki verið tveir skipstjórar á sama skipi þegar kemur að þessum málaflokkum eins og fjármálaeftirliti og þessum raforkumarkaði og ákvarðanir um ágreining um flutning raforku. Við getum bara séð það fyrir okkur ef ESA væri að taka eina ákvörðun og Samstarfsstofnun orkumála, ACER, að taka aðra ákvörðun. Það einfaldlega verður að vera eitthvað batterí sem leysir úr ágreiningi.“

Skúli sagði fyrirkomulagið sem upptaka þriðja orkupakkans í EES-samninginn byggði á, og hefði verið beitt tvisvar eða þrisvar áður, væri tilkomið vegna þess að Evrópusambandið hefði í auknum mæli falið sérstökum stofnunum þess vald á ákveðnum sviðum. Sjálft hefði sambandið upphaflega viljað að EFTA/EES-ríkin væru einfaldlega beint undir þessar stofnanir sett og bæði Norðmenn og Liechtensteinar hefðu verið reiðubúnir að fallast á það. Hins vegar hefðu íslensk stjórnvöld lagt áherslu á að byggt yrði á tveggja stoða kerfi EES-samningsins.

Ekki ESB að skapi að bara bestu molarnir séu valdir

Spurður hvað gerðist ef Alþingi tæki ákvörðun um að hafna því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af þriðja orkupakkanum sagði Skúli að það væri fyrst og fremst pólitísk spurning. Kveðið væri á um ákveðið lagalegt ferli sem færi í gang við þær aðstæður sem gæti leitt til frestunar viðkomandi viðauka, í þessu tilfelli orkumála. Vísaði hann til skýrslu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá 2012 um framkvæmd EES-samningsins til Evrópuþingsins þar sem kæmi fram að ef til slíkrar ákvörðunar kæmi „myndi Evrópusambandið sjá til þess að frestun viðauka hefði neikvæðar afleiðingar fyrir samningsaðilann.“

Þannig sagði Skúli að markmiðið hjá Evrópusambandinu væri að það hefði einhverjar neikvæðar afleiðingar fyrir viðkomandi EFTA/EES-ríki tæki það slíka ákvörðun, það er að þjóðþing þess nýtti heimild EES-samningsins og hafnaði því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna löggjafar frá sambandinu, með það fyrir augum að standa fyrir utan þá löggjöf sambandsins sem ríkið vildi ekki taka upp. Fram kemur í umræddri skýrslu að þetta kæmi þó ekki til nema viðræður um lausn málsins skiluðu ekki árangri innan tólf mánaða. Skúli sagði að það væri síðan spurning um áframhaldandi framkvæmd EES-samningsins og hvort málið hefði neikvæð áhrif á hana.

Málið gæti haft pólitískar afleiðingar sem Skúli sagðist þó ekki vilja vera með getgátur um. Með því að hafna því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara væru Íslendingar í raun að segja að þeir vildu velja „bestu molana“ úr samstarfinu og það væri Evrópusambandinu ekki að skapi. Þannig snerist EES-samstarfið um það að EFTA/EES-ríkin, þar á meðal Ísland, yrðu að kyngja því súra sem kæmi með EES-samningnum með því sæta.

Fyrirhugaðir eru frekari fundir í utanríkismálanefnd Alþingis síðar í vikunni með fleiri lögspekingum sem ritað hafa álitsgerðir um þriðja orkupakkann fyrir stjórnvöld.

Frá fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun.
Frá fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert