„Ég veit að hæstvirtur forsætisráðherra getur ráðið og rekið ráðherra Sjálfstæðisflokksins og hlýtur fyrir vikið að geta veitt Sjálfstæðisflokknum aðstoð nú við að framfylgja stefnu þess flokks,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi í dag.
Hann beindi fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og spurði hvort hún væri sammála orðum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í mati hans á innleiðingu þriðja orkupakkans frá því í lok mars í fyrra.
„„Það sem ég á svo erfitt með að skilja er áhugi hæstvirts þingmanns og sumra hér á þinginu á að komast undir boðvald samevrópskra stofnana. Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana?““ sagði Sigmundur þar sem hann las upp orð Bjarna frá því í fyrra.
Sigmundur spurði hvort Katrín væri sammála mati Bjarna. Ef svo væri, hvort hún gæti aðstoðað hann við að fylgja eftir þeirri skoðun og þeirri stefnu að raforkumál séu ekki innanríkismál hjá Evrópusambandinu.
„Eða ætlar hæstvirtur forsætisráðherra frekar að þiggja aðstoð Viðreisnar og Samfylkingarinnar við að ganga gegn stefnu Sjálfstæðisflokksins í málinu?“ spurði Sigmundur.
Katrín sagðist vilja minna Sigmund á að innleiðing þriðja orkupakkans feli einfaldlega í sér að verið væri að innleiða tveggja stoða lausn eins og hafi verið gert í öðrum málum. Meðan Ísland sé innan EFTA hafi verið lögð áhersla á tveggja stoða lausnir, hvort sem það er á sviði fjármálaeftirlits eða orkueftirlits.
„Síðan vil ég rifja upp, af því að við hæstvirtur þingmaður ræddum þau mál um daginn og ræddum þar m.a. greinargerð Stefáns Más Stefánssonar, prófessors emeritus, að hann hefur í kjölfarið séð sig knúinn til að ítreka þá afstöðu sem þar birtist, að sú leið sem lögð er til í þeirri þingsályktunartillögu sem þingið hefur nú til meðferðar felur í sér fyrirvara sem standast fullkomlega þá skoðun að við erum ekki knúin til þess að leggja sæstreng, sem er það sem þetta mál hefur fyrst og fremst snúist um, nema Alþingi taki þá ákvörðun einhvern tímann í framtíðinni að leggja sæstreng og þá fyrst taka þau ákvæði gildi sem eiga við um þetta sameiginlega regluverk,“ sagði Katrín.
Sigmundur sagði að við hlytum að óttast að Evrópusambandið muni í þessu máli skila rangri niðurstöðu ef við opnum á yfirráð þeirra með þeim hætti sem áður hafi verið gert, og nefndi í því samhengi landbúnaðarmál.
„Ég minni á að meðal annars er nú þegar verið að gera ráð fyrir því að færa Orkustofnun frá kjörnum fulltrúum á Íslandi og undir þessa samevrópsku stofnun, óháð sæstreng. Það kemur skýrt fram,“ sagði Sigmundur en þá heyrðist hátt og skýrt kallað „nei“ úr salnum. Sigmundur spurði hvort Katrín væri tilbúin að endurskoða þetta mál.
Katrín ítrekaði að búið væri að leggja fram frumvarp sem felur það í sér að sæstrengur verði ekki lagður til Íslands nema með samþykki Alþingis.
„Það er töluvert önnur stefna en hæstvirtur þingmaður stóð sjálfur fyrir þegar hann fór til Bretlands og undirritaði sérstaka viljayfirlýsingu um sæstreng með forsætisráðherra Bretlands á þeim tíma,“ sagði Katrín en Sigmundur kallaði fram í að það væri rangt.
Katrín sagði að verið væri að vanda sig við málið. „Ég legg á það áherslu að utanríkismálanefnd gefi sér tíma til að fara yfir þetta mál og öll þau vafaatriði sem uppi kunna að vera þannig að þingmenn geti tekið afstöðu með upplýstum hætti síðar í vor.“