„Þetta er óvenjuheitt fyrir þennan árstíma og markar endann á þessum hlýindakafla sem hófst á föstudaginn fyrir pálmasunnudag, 12. apríl,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Víða hefur verið mjög heitt á landinu í dag og er jafnvel talið að hitamet fyrir apríl hafi fallið í Reykjavík þegar hiti fór yfir 16 stig. Þá fór hiti yfir 19 stig á Þingvöllum, í Skagafirði og á Bíldudal.
Teitur segir að afar hlýtt hafi verið á landinu frá 12. apríl, sem valdi því að líklega verður þetta hlýjasti aprílmánuður frá því mælingar hófust bæði í Reykjavík og á Stykkishólmi, og mögulega sá jafnhlýjasti á Akureyri. Þetta verði staðfest með mánaðaryfirliti veðurfarsdeildar Veðurstofunnar.
„Þetta er flottur endapunktur á þessum hlýja kafla, að hlýindin toppi sig undir lokin,“ segir Teitur, en nú er von á köldu lofti úr norðri, sem mun þó hafa meiri áhrif í Skandinavíu. „Við fáum ekki það versta, en engu að síður kólnar miðað við það sem verið hefur.“