Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun eiga fund með fyrsta ráðherra Skotlands, Nicolu Sturgeon, í Edinborg í dag þar sem væntanlega verður rætt um norðurslóðastefnu Skota, Brexit og tengsl Skotlands við Norðurlöndin. Þetta kemur fram á BBC.
Sturgeon segir að Ísland og Skotland eigi margt sameiginlegt og hún sé afar ánægð með heimsókn Katrínar og að hún verði til þess að auka enn frekar á tengsl landanna.
Sturgeon segir í samtali við BBC að það sé svo margt aðdáunarvert við Ísland, ekki síst hvað varðar launajafnréttindi kynjanna, sterka löggjöf um jafnan rétt kynjanna varðandi stöðu á vinnumarkaði og laun.