Líf Magneudóttir, formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs og varaformaður stjórnar Sorpu, segir að ruslahaugurinn í Hamrahverfinu, við móttökustöð Sorpu, verði fjarlægður án tafar og borgaryfirvöld séu upplýst um umgengnina á svæðinu.
„Einhver óprúttinn aðili hefur hent þessu eftir að endurvinnslustöðvunum var lokað. Þetta er bara óþrifnaður og ábyrgðarleysi að fólk geti ekki virt náttúruna og farið með þetta þær leiðir sem eru í boði. Það er ekki vegna þess að það er ekki upplýst, það er vegna þess að það vill losa sig við þetta strax,“ sagði Líf.
Hún segist kannast við það að Hafnarfjarðarbær sé í vandræðum með það að fólk fari „út í hraun“ og hendi þar rúmdýnum og svörtum ruslapokum.
„Það er mikið áhyggjuefni að fólk skuli ekki vera meðvitaðra en svo,“ sagði Líf.
Heilbrigðiseftirlitinu höfðu ekki borist ábendingar
Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafa ekki borist ábendingar um sorpið sem liggur við fjöruna í Hamrahverfi Grafarvogs. Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins, segir að af og til berist ábendingar um að sorpi sé sturtað á almannafæri og þá skoði eftirlitið málið og geri lóðareiganda skylt að hirða sorpið.
„Það þýðir ekkert að benda a einhvern annan, það er lóðareigandi sem ber ábyrgð á sinni lóð. Í sumum tilvikum reynir fólk að segja „ég gerði þetta ekki“ en eftirlitið gengur alltaf að lóðarhafa, sagði Árný.