Katrín fundaði með Corbyn

Katrín tók þátt í vinnufundi smærri ríkja um velsældarhagkerfi í …
Katrín tók þátt í vinnufundi smærri ríkja um velsældarhagkerfi í Edinborg í morgun. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Katrín Jakobsóttir forsætisráðherra átti tvíhliða fund með Jeremy Corbyn, formanni breska Verkamannaflokksins og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, á breska þinginu í dag. 

Katrín og Corbyn ræddu meðal annars um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, efnahagsmál, loftslagsmál og alþjóðasamvinnu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Corbyn og Katrín.
Corbyn og Katrín. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Fundinn sátu einnig John McDonnell, skuggaráðherra fjármála, og Emily Thornberry, skuggaráðherra utanríkismála. Þá tók forsætisráðherra þátt í hringborðsumræðum á vegum hugveitunnar Fabian Society um framtíðaráskoranir í atvinnumálum, en meðal þátttakenda voru Paul Nowak, framkvæmdastjóri Trade Union Congress og Ed Miliband, þingmaður og fyrrverandi formaður Verkamannaflokksins.

Þar að auki tók Katrín þátt í vinnufundi smærri ríkja um velsældarhagkerfi í Edinborg í morgun og fjallaði um mikilvægi þess að efla þekkingu á velsæld og leiðum til að endurmóta hagkerfið svo það mæti þörfum nýrra tíma. 

„Loftslagsvandinn er eitt skýrasta merki þess að við þurfum að endurmeta mælikvarða okkar í efnahagsmálum og samfélagsþróun. Á tímum þar sem alþjóðleg samvinna á undir högg að sækja er mikilvægt að smærri ríki leggi sitt af mörkum við að byggja upp sjálfbært efnahagskerfi.“

Fundirnir eru hluti af dagskrá forsætisráðherra í þriggja daga heimsókn hennar til Bretlands, en á morgun fundar hún með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og flytur fyrirlestur við London School of Economics.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert