Fulltrúa eftirlaunafólks var í fyrsta sinn boðið að halda hátíðarræðu á degi verkalýðsins í dag, en á Húsavík flutti hátíðarræðu Ásdís Skúladóttir, leikstjóri og einn stofnenda Gráa hersins. Verkalýðsdagurinn á Húsavík var helgaður baráttu eldri borgara fyrir bættum kjörum.
Eitt umfjöllunarefna Ásdísar voru nýsamþykktir lífskjarasamningar og sagði hún eldri borgara gera kröfu um sömu launahækkanir og hinir lægst launuðu sömdu um í fyrrnefndum samningum. Sagði hún það ófrávíkjanlega kröfu Gráa hersins að lægstu eftirlaun yrðu aldrei lægri en lágmarkslaun í landinu.
„Eins og margir vita hefur Grái herinn nánast eingöngu beint starfi sínu að kjaramálum eldra fólks. Við völdum sem sé að vinna að sveigjanlegum verkalokum og þar með ótímabæru brottkasti fólks af vinnumarkaði og að því að fá afnumdar þær skerðingar sem fólk býr við sem hefur átt of mörg afmæli,“ sagði Ásdís.
„Í hinum nýja lífskjarasamningi þar sem ýmsar kjarabætur komu fram í fjölbreyttu formi, er hvergi minnst á launakjör eldri borgara, enda komu þeir ekki að borðinu í þessum samningum. Af hverju er okkur skákað til hliðar? Hvers vegna eigum við ekki sæti við samningaborðið? Nei, við erum bara sett í nefnd sem skilar ekki af sér fyrr en undir jól - við þekkjum þessa nefnd vel,“ sagði hún.
Ásdís fjallaði um að öldruðu fólki væri haldið í „fátæktargildru“ með „óréttlátu, ónýtu og gatslitnu kerfi og yfirgengilegum skerðingum.“
„Fréttir berast af því að eldra fólk deyi á biðlistum hjúkrunarheimilanna, að heimilin séu undirmönnuð. Það er rætt um að gamalt fólk teppi rúmin á hátæknisjúkrahúsunum; sé fráflæðisvandi. Undirmönnun! Amma mín datt fram úr rúmi og brotnaði, mamma mín datt fram úr rúmi og brotnaði, systir mín datt og brotnaði – hvernig skyldi ég brotna?“ sagði Ásdís sem talaði einnig fyrir fjárfestingu í lýðheilsu.
„Það er vissulega ekki hægt að stinga Ellikerlingu af en það er hægt að storka henni vel og lengi með því að leggja áherslu lýðheilsu ungra sem aldinna. Lífsstíll okkar hefur mikið að segja um það hvernig við eldumst, hvernig mataræði okkar er, hvort við hreyfum okkur nóg og síðast en ekki síst hvort við höf aura til að njóta almennra lífsgæða í hvunndeginum. Heilsan er allt í senn, andleg, líkamleg og félagsleg,“ sagði hún.
„Það er nokkuð ljóst að nokkur hluti gamals fólks hefur um aldir þurft að lifa með ógn þurfalingstilverunnar og ómagastimpilinn yfir höfði sér, síðustu æviárin. Er sú ógn enn til í einhverju formi í því nútímavelferðarsamfélagi sem við lifum í?“ sagði Ásdís.
„Hvernig komum við til móts við þá sem eru gamlir og veikir? Býr fólk á eigin heimili lengur en það getur? Nýtur það góðfýsi og mannkærleika? Þurfum við virkilega að hlusta á það í fjölmiðlum að okkur sé alltaf að fjölga eins og við séum náttúruvá eða engilsprettufaraldur?“ sagði hún.
„Áhyggjulausa ævikvöldið er auðsjáanlega ekki fyrir alla, bara suma. Þeir eru líka orðnir ansans ári margir sem kvíða þessu tímabili ævinnar. Vilja ekki vera settir í nefnd, ekki láta tala um sig eins og þeir séu engilsprettufaraldur, ekki vera bótaþegar, ekki ótímabært brottkast og ekki fráflæðisvandi hátæknisjúkrahúsa. Við erum hætt að bíða! Byltingin byrjar á Húsavík!“ sagði Ásdís.