Segja Isavia hafa brotið eigin reglur

Oddur Ástráðsson og Eva B. Helgadóttir, lögmenn ALC.
Oddur Ástráðsson og Eva B. Helgadóttir, lögmenn ALC. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögmenn bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC sögðu í málflutningi sínum í máli þess gegn Isavia að forráðamenn Isavia virðist ekki sjálfir vita hvernig eigi að túlka það lagaákvæði sem það byggir á sem heimild til þess að halda vél sem var á leigu hjá WOW air kyrrsettri á Keflavíkurflugvelli. Þá brjóti Isavia eigin reglur með því að leyfa skuldum WOW air að safnast upp.

Málflutningur hófst í Héraðsdómi Reykjaness í morgun, en ALC krefst þess að Isavia aflétti kyrrsetningu vélarinnar. Hefur hún verið í vörslu Isavia frá gjaldþroti WOW air, til tryggingar nærri tveggja milljarða króna skuld WOW air við Keflavíkurflugvöll.  Tekist er á um hvort Isavia hafi lagaheimild í loftferðarlögum til þess að halda vélinni. Isavia hefur ávallt talið að svo sé.

Oddur Ástráðsson og Eva B. Helgadóttir, lögmenn ALC, sögðu í málflutningi sínum í dómssal að  þrátt fyrir að rúmur mánuður sé liðinn síðan þotan var kyrrsett þá hefur Isavia ekki getað upplýst um endanlega fjárhæð sem félagið krefst að sé borguð til þess að losa vélina. Þrátt fyrir það sé krafist greiðslu.

Þá segi í reglum Isavia að félaginu sé óheimilt að innheimta ekki skuldir, en fram hefur komið að í júlí síðastliðnum hafi skuld WOW air við Isavia verið rúmur milljarður króna.

„Með því að innheimta ekki gjöldin virðist gerðarþoli vera að brjóta eigin reglur, eða þær reglur sem honum er gert að starfa eftir á grundvelli loftferðarlaga,“ sagði Eva, og að ekki heimild sé að halda eign í eigu þriðja aðila upp í kröfurnar.

Greiðsluáætlun Isavia og WOW air um greiðslu skulda hafi verið samkomulag um vanskil. Að Isavia taki eign þriðja aðila sem tryggingu sé langt út fyrir lagaheimildir. Framganga Isavia í málinu sé „valdníðsla af verstu sort.“

Vélin sem er í eigu ALC í vörslu Isavia á …
Vélin sem er í eigu ALC í vörslu Isavia á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Heimild til kyrrsetningar úr gildi við gjaldþrot

Lögmenn ALC sögðu jafnframt að lagaákvæðið um rétt til kyrrsetningar félli aðeins undir núverandi umráðahafa farþegaþotu. Nú er ALC umráðandi vélarinnar á ný og því hafi Isavia ekki rétt til þess að beita ákvæði loftferðarlaga til þess að kyrrsetja vélina. Í síðasta lagi við gjaldþrot WOW air datt heimild Isavia til þess að kyrrsetja vélina vegna kröfu á hendur WOW air úr gildi.

Ef WOW air ætti vélina þá færi krafa Isavia í röð þeirra sem ætla að sækja kröfur í þrotabúið. Að ætla sér að sækja kröfur á hendur þriðja aðila, eiganda þotunnar, standist ekki.

Oddur benti á að þotan sem um ræðir TF-GPA, hafi verið Keflavíkurflugvelli óviðkomandi í um fjóra mánuði fyrir gjaldþrot WOW air. Hún hafi verið í leiguverkefni í Karabíska hafinu og því ekki fallið undir notendagjöld á Keflavíkurflugvelli. Aðeins ein ferð hafi verið farin um völlinn í fjóra mánuði fyrir gjaldþrotið.

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, í héraðsdómi í morgun.
Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Eggert

Isavia meðvitað um mögulegt heimildarleysi

Í krafti upplýsingalaga hefur mbl.is undir höndum fundargerðir stjórnar Isavia, en Oddur vitnaði í stjórnarfund frá sunnudeginum 24. mars, skömmu áður en WOW air varð gjaldþrota.

„Rætt var að frestun á því að beita þessari heimild getur hugsanlega leitt til lakari stöðu félagsins við innheimtu ógreiddra gjalda ef flugfélagið fer í þrot áður en henni verður beitt,“ segir í fundargerðinni. Oddur sagði að þetta bendi til þess að stjórn Isavia hafi verið meðvituð um mögulegt heimildarleysi sitt til þess að kyrrsetja vélina.

Eva sagði jafnframt í sínum málflutningi að Isavia viti ekki hvernig beri að túlka ákvæði loftferðarlaga sem félagið byggir rétt sinn á. Hvort um sé að ræða veðréttindi, haldsrétt eða stofnun kröfuréttinda.

„Þetta er hið skýra lagaákvæði sem gerðarþoli [Isavia] byggir á. Lagaákvæði sem gerðarþoli sjálfur virðist ekki hafa hugmynd um hvað er,“ sagði Eva. Ekki sé heldur nóg að lagaheimildin sé metin skýr, heldur þurfi hún að standast skilyrði stjórnarskrár. Túlkun heimildarinnar sé ekki háð einhliða mati þess sem ákvæðinu beiti.

Málflutningur lögmanna Isavia er nú að hefjast í héraðsdómi, en mbl.is flytur fréttir úr dómssal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka