Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði á Alþingi að þjáningum þeirra sem eru á biðlistum eftir því að komast í aðgerðir á Landspítalanum verði að linna. Fólkið geti ekki beðið lengur.
Undir dagskrárliðnum óundirbúinn fyrirspurnatími spurði hún Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvort hann ætli að beita sér fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands fái auknar heimildir, þó ekki væri nema tímabundið, til að koma til móts við biðlistana og semja við sjálfstætt starfandi aðila.
Bjarni sagði það skipta miklu máli að ná fram aukinni skilvirkni í heilbrigðiskerfinu til að losna við biðlista. Hann sagði málið flókið og að velta þurfi fyrir sér orsökunum fyrir biðlistunum. Hann sagði að mikið af eldra fólki sem hefði þegar fengið úrlausn sinna mála væri fast inni á spítalanum vegna þess að það kemst ekki inn á hjúkrunarheimili. Hann nefndi að horfa þyrfti á heilbrigðiskerfið oftar út frá hagsmunum sjúklinga.
Þorgerður Katrín benti á að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu hafnað tillögu um að veita 200 milljónum króna til Sjúkratrygginga Íslands. Sagði hún brýnt að ráða bót á vandanum strax og hvatti Bjarna til að leita til sjálfstætt starfandi aðila í samfélaginu til að stytta biðlistana.
Ráðherrann kvaðst ekki hafa greitt atkvæði með tillögunni vegna þess að hún hafði ekki í för með sér frambúðarlausn á vandanum.