Kári Stefánsson prófessor, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur verið kjörinn í bandarísku vísindaakademíuna, National Academy of Sciences (NAS), fyrstur Íslendinga.
Tilkynnt var um þetta á fimmtudag í síðustu viku. NAS er ein rótgrónasta og virtasta stofnun bandarísks vísindasamfélags, sett á fót í mars 1863 með lögum sem Abraham Lincoln, þáverandi forseti, undirritaði.
Kjör í akademíuna þykir einhver mesta viðurkenning sem nokkrum vísindamanni getur hlotnast á ferli sínum. Hafa 190 félagar í akademíunni hlotið nóbelsverðlaun. Virkir félagar í NAS í Bandaríkjunum eru nú 2.347 og erlendir samstarfsfélagar eru 487. Erlendu félagarnir hafa ekki atkvæðisrétt á fundum akademíunnar.
Samtals voru að þessu sinni kjörnir 100 nýir félagar úr hópi vísindamanna, sem eru bandarískir ríkisborgarar, og 25 erlendir samstarfsfélagar. Kjör í akademíuna felur í sér viðurkenningu á mikilvægu framlagi til vísinda. Ekki er hægt að sækja um inngöngu í NAS heldur verða menn að hljóta tilnefningu kjörins félaga.