Talsvert umferðaröngþveiti myndaðist við Austurvöll um hádegisbilið í gær og keyrðu ökumenn bílum sínum á gangstéttum og á móti umferð. Talsverðar lokanir eru í miðbænum vegna framkvæmda við byggingu hótela.
Margt var um manninn í bænum á sama tíma í gær en bæði var útför frá Dómkirkjunni og árlegur peysufatadagur Verzlunarskólans fór fram á Ingólfstorgi.
Líkbílnum var lagt á Kirkjustræti venju samkvæmt og lokaði fyrir umferð. Líklegt er að bæði aðstandendur sem fylgdu verslunarskólanemum sem og kirkjugestir hafi lent í vandræðum við að komast leiðar sinnar og því gripið til þess ráðs að keyra á göngugötu. Ökumenn keyrðu bæði Thorvaldssenstræti þar sem gamla Nasa var til húsa og Vallarstræti þar sem gestir kaffihússins Kaffi París sitja gjanan á góðum sumardögum.
Framkvæmdir eru bæði á gamla Landsímareitnum þar sem rís nýtt hótel sem og framkvæmdir við Lækjagötu og Vonarstræti.
Lögreglan fylgdi prúðbúnum nemendum Verzlunarskólans sem gengu fylktu liði frá Hallgrímskirkju og niður á Ingólfstorg. Lögreglan þurfti því að greiða úr umferðarflækjunni sem myndaðist og ökumenn þurftu að sýna biðlund á meðan.