Miðasala er hafin á oddaleik KR og ÍR í úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik. Leikurinn hefst klukkan 20.00 í KR-heimilinu annað kvöld en gert er ráð fyrir því að færri komist en vilji en salurinn er með leyfi fyrir 1170 áhorfendum. Liðið sem vinnur leikinn verður Íslandsmeistari.
KR-ingar, ÍR-ingar og körfuboltaáhugafólk almennt getur nálgast miða á vefsíðu KR. Auk þess opnar miðasala í anddyri KR klukkan 17.00 á morgun en fólk er hvatt til að mæta með reiðufé til að létta álagi á posakerfi.
Fram kemur á Facebook-síðu KR körfu að áhorfendur geti keypt sér grillaða hamborgara frá klukkan 16.00 í KR-heimilinu en opnað er inn í salinn klukkan 18.30.
„Við erum með reglur hvað við megum hleypa inn í húsið og förum eftir því,“ segir Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, við mbl.is. Fyrir tveimur árum síðan fór einnig fram oddaleikur í KR-heimilinu þegar KR vann Grindavík.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins 2. maí 2017 voru um 2.800 áhorfendur á þeim leik en áhorfendi féll í yfirliði og þrír aðrir þurfti á aðhlynningu að halda vegna mikils hita í salnum.
Böðvar segir að á morgun verði sérstaklega passað upp á að loftið verði gott í fullum salnum. „Við pössum upp á þetta enda hleypum við inn í salinn einum og hálfum tíma fyrir leikinn.“
Hann segist ekki geta sagt til um hversu margir áhorfendur verða en KR-ingar, Íslandsmeistarar síðustu fimm ára, eru vanir því að stórleikir sem laði að marga áhorfendur séu leiknir á þeirra heimavelli.
„Við vitum hvað við erum að fara út í og þetta er ekkert nýtt varðandi umgjörðina.“
Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, segir að salurinn í KR-heimilinu sé með leyfi fyrir 1170 áhorfendum. Hann segir að staðan sé önnur en fyrir tveimur árum en yfirvöld séu búin að þrengja að KR-ingum.
Böðvar er mjög spenntur fyrir morgundeginum og býst við því að það myndist góð stemning á pallinum við KR-heimilið og í félagsheimilinu strax upp úr klukkan fjögur.
„Það er frábært að Reykjavíkurliðin tvö séu komin með þetta í oddaleik. Stemningin á leikjunum hefur verið frábær. Lið númer fimm og sjö komin í oddaleik um titilinn. Það er magnað.“