Viðskiptaráð segir höfnun þriðja orkupakka Evrópusambandsins kunna að hafa í för með sér „miklar, alvarlegar og ófyrirséðar afleiðingar“ og ekki sé hægt að ræða umrædda höfnun nema með tilliti til þessa, að því er fram kemur í umsögn samtakanna um þingsályktunartillögu um innleiðingu orkupakkans.
„Þess vegna þarf að nálgast alla umræðu um þriðja orkupakkann eins og að um umræðu um áframhaldandi aðild Íslands að EES-samningnum væri að ræða,“ segja samtökin og taka fram að neitunarvald Íslendinga innan EES sé fyrst og fremst neyðarúrræði.
Jafnframt er fullyrt að andstæðingar orkupakkans séu í raun andstæðingar EES-samningsins, en geta sett fram mál sitt í skjóli orkupakkans. „Umræðan um þriðja orkupakkann ber þannig með sér að vera skálkaskjól fyrir umræðuna um áframhaldandi aðild Íslands að EES. Þessu skauta andstæðingar innleiðingarinnar þó hjá í lengstu lög,“ segir í umsögninni.
„Andstæðingar þriðja orkupakkans og efasemdamenn um EES-samstarfið vita mætavel að niðurstaðan af heildstæðum samanburði á EES yrði málflutningi þeirra afar óhagstæð. Þess vegna velja þeir þá leið að ráðast gegn einni tiltekinni EES-innleiðingu, frekar en að ræða kosti og galla samningsins í heild.“
Áhrif orkupakkans á Íslandi verða hins vegar takmörkuð að mati Viðskiptaráðs, „en þó skref í rétta átt til að tryggja aukna samkeppni og skilvirkari raforkumarkað“.
Telur ráðið einnig að mikilvægi EES-samningsins sé margfalt meira en hugsanlegir ágallar orkupakkans. „Fram hefur komið að óvissan við það að neita samþykkt sé mikil og að í raun breyti orkupakkinn sáralitlu.“
Vísar ráðið til utanríkisviðskipta máli sínu til stuðnings, en tekur þó fram að „heildaráhrif[um] EES samningsins á utanríkisviðskipti er erfitt að festa fingur á sökum þess hve fjölbreytt þau eru auk þess sem áhrifin eru oft óbein“. Engu að síður er bent á að hlutdeild EES-ríkjanna í vöruútflutningi aukist úr 66% árið 1993 í 79% árið 2017.
Einnig kemur fram að „á 25 árum frá innleiðingu EES hefur útflutningur Íslands vaxið um samtals 269%. Árin 25 á undan jókst hann aftur á móti einungis um 131%.“
„Viðskiptaráð Íslands leggur til að þingsályktunartillagan nái fram að ganga,“ segir að lokum í umsögninni.