Sjónlag hefur sinnt fjölmörgum augasteinaaðgerðum sem hjálpað hafa til með að stytta biðlista en nú er framhaldið óljóst þar sem samningur Sjónlags rann út um síðastliðin mánaðamót.
Jónmundur Gunnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sjónlags, vonar að framhald verði á samstarfi sem eykur fjölbreytni í kerfinu og skapar svigrúm fyrir opinberar stofnanir.
Í Sjónlagi hafa verið framkvæmdar aðgerðir þar sem skipt er um augasteina frá árinu 2008. Flestir sem þurfa á slíkri aðgerð að halda eru með ský á augasteini og sjá afar illa fyrir vikið. Jónmundur útskýrir að ríkið borgi augasteinaaðgerðir ef viðkomandi uppfylli ákveðin skilyrði en einnig eru aðrir sem kjósa að fara í slíka aðgerð á eigin kostnað til þess að auka lífsgæði sín, t.d. að losna við gleraugu. Fyrir þá sem augljóslega þurfa á slíkri aðgerð að halda þarf sjúklingur fyrst að fara á biðlista.
„Þörfin er tæplega 1% af mannfjölda, talið í fjölda augna. Þá sjáum við að hún er í kringum 3.400 augu á ári. Landspítalinn var með á föstum samningi 800 aðgerðir og tveir aðilar sinn með hvorar 400 aðgerðir. Þá er gatið samt 1.400 manns, sem skapar þrýsting inn í kerfið. Biðlistaátakið dugar svo stutt, sérstaklega líka þegar við fengum bara samninginn í tvö ár, en ekki þrjú. Þá eykst bara þrýstingurinn aftur,“ segir hann og segist vita að gerður hafi verið samningur við Landspítala um auka 1.200 aðgerðir ofan á þær 800 sem eru gerðar þar fyrir. „En þá er þörfin enn óuppfyllt að því gefnu að við værum með grunnsamning, sem rann út í vikunni.“
Jónmundur segir ýmsu ábótavant í heilbrigðiskerfinu og telur hann að þjónustustigið þurfi að batna til muna. Ekki er ásættanlegt að bíða í á annað ár eftir augasteinaaðgerð að hans mati.
„Fólk með ský á auga býr við skert lífsgæði. Þetta eru oft aldraðir einstaklingar og þeir eiga betra skilið en þetta. Oft er ekkert mikið eftir af ævinni og að þurfa að sóa fimmtán mánuðum í að bíða er bara alveg hræðilegt,“ segir Jónmundur.
„Það væri mjög áhugavert að skoða heildarkostnaðinn við að eyða biðlistum og hversu hátt hlutfall það yrði af kostnaðinum í heilbrigðiskerfinu. Ég held að það mætti hagræða helling, laga til og spara mikið. Við getum gert svo miklu betur, við erum með hæfa lækna og hæft starfsfólk,“ segir Jónmundur sem segist hafa boðið heilbrigðisráðherra í heimsókn, án árangurs.
„Okkar upplifun er að ráðuneytið vilji ekki af þessari starfsemi vita. Hvar eigum við að stoppa í þessari vegferð? Ætlum við, eins og ég nefndi áðan, að setja alla tannlækna á ríkisreknar einingar? Hvað með vegagerðina, á Vegagerðin að sjá um allar vegalagnir á Íslandi? Á enginn jarðvinnuverktaki að koma þar að verki? Svo sjá allir ofsjónum yfir því að einhvers staðar myndast arður. Það er algjörlega bannað. Í mínum augum er arður ekki þjófnaður. Arður kemur til af því þú stendur þig vel, þú ert búinn að hagræða, þú hleypur hratt og ert að gera góða hluti. Það er hvati að framþróun, en það má enginn græða,“ segir hann.
„Sumir vilja meina að ríkisrekið sé eina lausnin. Ég segi nei, alfarið ekki. Það er jafn vitlaust að segja að ríkisrekið sé eina lausnin og að segja að einkarekið í heilbrigðisgeiranum sé eina lausnin. Það verður að vera sambland af hvoru tveggja og menn þurfa að vinna meira saman,“ segir Jónmundur.
„Það er eitthvað að kerfinu, því þarf að breyta. Ríkið á að huga að fjölbreytileika til að tryggja framþróun og halda þjónustuveitendum á tánum. Greiðandi þjónustunnar á að horfa á gæði, magn og verð.“
Jónmundur vonast til þess að hlutirnir muni batna en til þess þarf að ræða málin.
„Ég er hlynntur jákvæðri gagnrýni. Samtal er alltaf af hinu góða. Maður skilur ekki af hverju heilbrigðisráðherra vill ekki tala við aðila eins og okkur. Það er sorgleg staða.“
Nánar er fjallað um augasteinaaðgerðir í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.