Fram kemur meðal annars í umsögn Samtaka iðnaðarins um þingsályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um samþykkt þriðja orkupakka Evrópusambandsins í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum að hugmyndir um rafmagnssæstreng frá landinu og til Evrópu samrýmist ekki stefnu samtakanna.
Vísað er í því sambandi til raforkustefnu SI frá árinu 2016 þar sem lögð sé skýr áhersla á að raforka framleidd á Íslandi skuli nýtt til verðmætasköpunar innanlands enda sé öflugur iðnaður undirstaða búsetu og verðmætasköpunar. Slík framkvæmd samræmist því ekki stefnu SI eða hagsmunum aðildarfyrirtækja samtakanna.
Hins vegar telur SI að ekkert í þriðja orkupakkanum leggi skyldu á íslensk stjórnvöld til þess að leggja slíkan sæstreng. „SI telja engin efnisleg rök standa til þess að hérlend starfsemi og hagsmunir sem grundvallast á því hagræði sem EES-samningurinn felur í sér sé sett í uppnám vegna þessa máls,“ segir ennfremur.
Telja SI að þriðji orkupakkinn hafi ekki miklar breytingar í för með sér en annað sé raunin varðandi fjórða orkupakkann. Þar sé um að ræða enn víðtækari regluverk en samkvæmt fyrri orkupökkum. Að mati samtakanna séu þar undirliggjandi ýmis hagsmunamál sem hafi frekari skírskotun til íslenskra hagsmunamála.
Þannig sé boðaður fjórði orkupakki mun víðtækari en sá þriðji „og því mikilvægt að áhersla verði lögð á að halda þar á lofti hérlendri sérstöðu, s.s. hvað varðar endurnýjanlega orkugjafa.“