Pylsan skorin niður í pakka

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður VG og ráðherra.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður VG og ráðherra. mbl.is/​Hari

„Markaðsvæðing raforkunnar og vatnsins hefur verið óvinsæl í Evrópu eins og einkavæðing grunnþjónustunnar almennt. Við svo búið hefur verið brugðið á það ráð að skera pylsuna niður í sneiðar eða pakka og hefur viðkvæðið þá verið hið sama: Þetta er ekki verri biti en sá fyrri,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og ráðherra, í umsögn til Alþingis um þriðja orkupakkann.

Hins vegar segir Ögmundur að það sé vegferðin öll og lokamarkmið hennar sem þurfi að horfa á sem sé markaðsvæðing og í kjölfarið einkavæðing orkugeirans á Íslandi.

„Þau okkar sem andvíg voru þessari þróun lögðust gegn samþykkt fyrsta og annars orkupakka og þykir mér ekki síður rökrétt að leggjast gegn samþykkt þessa pakka svo og þeirra sem fylgja í kjölfarið. Smám saman missum við sem samfélag forræðið yfir orkunni, auðlindum og vinnslu, og mun gangverk marðaðarins stýra för.“

Vísar Ögmundur þar meðal annars til þess að VG hafnaði fyrsta og öðrum orkupakka Evrópusambandsins á sínum tíma þegar flokkurinn var í stjórnarandstöðu.

„Ég heiti á alla félagslega þenkjandi alþingismenn að taka höndum saman við öll þau sem nú vilja sporna gegn þessari óheillaþróun. Ef þau sem áður studdu málið telja að nú stefni að þeirra mati í ófyrirséð óefni þá ber að taka því fagnandi. Með markaðsvæðingunni er verið að byggja inn í kerfið hvata sem eru varasamir: Að virkja sem mest, fyrir sem mestan arð,“ segir hann síðan enn fremur í umsögn sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert