Með orkupökkum Evrópusambandsins er innleidd löggjöf sem hvorki hentar aðstæðum á Íslandi né hagsmunum landsins. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn samtakanna Orkan okkar til utanríkismálanefndar Alþingis um þingsályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um samþykkt þriðja orkupakka sambandsins vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).
Kalla samtökin eftir því að Alþingi hafni því að samþykkja þriðja orkupakkann með því að aflétta ekki stjórnskipulegum fyrirvara af honum. Með því færi málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem hægt yrði að óska eftir lagalega bindandi undanþágum frá því að innleiða löggjöf Evrópusambandsins um orkumarkaði. Þegar liggi fyrir pólitísk viðurkenning sambandsins á því að Ísland tengist ekki orkumarkaði þess. Fyrir vikið ætti að vera auðsótt að fá lagalega bindandi undanþágu á þeim grunni.
Samtökin vísa því á bug að höfnun Alþingis á því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af þriðja orkupakkanum setji EES-samninginn í uppnám enda sé beinlínis gert ráð fyrir því að slíkar aðstæður skapist í samningnum og kveðið á um hvernig bregðast skuli við. Þá fari í gang vinna með það fyrir augum að finna lausn á málinu sem samtökin segja að gæti falist í því að Ísland fengi undanþágu frá orkupakkanum sem slíkum.
„Frá upphafi hefur það verið ein af forsendum EES-samningsins að aðildarríki geti hafnað löggjöf og lagabreytingum frá ESB. Í EES-samningnum eru ákvæði til að finna farsæla lausn í slíkum tilvikum,“ segir þannig í umsögninni. Bent er enn fremur á að fleiri orkupakkar séu væntanlegir. Sá fjórði sé nær tilbúinn og sá fimmti boðaður. Hætt sé við að samþykkt orkupakka Evrópusambandsins kyndi undir almennri og vaxandi óánægju með EES-samninginn. Mikilvægt sé því að samþykkja ekki fleiri orkupakka.
„Með orkupökkunum er innleitt hér regluverk sem leiðir til grundvallarbreytinga á fyrirkomulagi orkumála. Hér á landi hefur orkukerfið verið nær alfarið í sameign þjóðarinnar. Hér er framleidd tvöfalt meiri raforka á íbúa en í nokkru öðru ríki. Þjóðin nýtur í sameiningu vaxandi arðs af orkuframleiðslu. Orkumál eru án nokkurs vafa eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar en umræðan um framtíð orkumála hefur samt ekki verið fyrirferðamikil,“ segir enn fremur í umsögn samtakanna og áfram:
„Með orkupökkunum verða umskipti til markaðsvæðingar orkukerfisins, án þess að áður hafi farið fram ítarleg greining á margvíslegum áhrifum markaðsvæðingar eða að afstaða landsmanna til slíkrar grundvallarbreytingar hafi verið könnuð. Áður en lengra er haldið á sömu braut væri skynsamlegt að taka umræðuna, meta kosti og galla og kanna hvort almenn sátt ríki um frekari markaðsvæðingu orkukerfisins.“