Mál Freyju fer fyrir Hæstarétt

Hæstiréttur Íslands hefur veitt Barnaverndarstofu leyfi til þess að áfrýja …
Hæstiréttur Íslands hefur veitt Barnaverndarstofu leyfi til þess að áfrýja dómi í máli Freyju Haraldsdóttur gegn stofnuninni til Hæstaréttar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæstirétt­ur Íslands hef­ur veitt Barna­vernd­ar­stofu leyfi til þess að áfrýja dómi í máli Freyju Har­alds­dótt­ur gegn stofn­un­inni til Hæsta­rétt­ar, en Lands­rétt­ur kvað upp þann dóm um miðjan síðasta mánuð að Barna­vernd­ar­stofa hefði mis­munað Freyju vegna fötl­un­ar og sneri þar með við dómi sem áður hafði fallið í héraði.

Freyja hef­ur farið fram á það í mál­inu að úr­sk­urður úr­sk­urðar­nefnd­ar vel­ferðar­mála frá ár­inu 2016 verði felld­ur úr gildi, en með þeim úr­sk­urði var staðfest sú ákvörðun Barna­vernd­ar­stofu að hafna um­sókn Freyju um leyfi til þess að taka barn í var­an­legt fóst­ur.

Fram kem­ur í niður­stöðu Hæsta­rétt­ar um mál­skots­beiðnina að Barna­vernd­ar­stofa hafi byggt beiðni sína um áfrýj­un­ar­leyfi á því að málið hafi veru­legt al­mennt gildi um hvernig stjórn­völd­um beri að beita jafn­ræðis­regl­unni og rann­sókn­ar­regl­unni og að niðurstaða máls­ins varði mik­il­væga hags­muni barna sem þurfi að setja í var­an­legt fóst­ur.

Þá hafi dóm­ur Lands­rétt­ar verið ber­sýni­lega rang­ur, þar sem litið hafi verið fram hjá meg­in­mark­miðum barna­vernd­ar­laga, þriðju máls­grein 76. stjórn­ar­skrár Íslands (um að börn­um skuli tryggð í lög­um sú vernd og umönn­un sem vel­ferð þeirra krefst) og samn­ingi Sam­einuðu þjóðanna um rétt­indi barns­ins, um að hags­mun­ir barna skuli ávallt skipta mestu þegar tekn­ar séu ákv­arðanir um þau.

„Að virt­um gögn­um máls­ins verður að líta svo á að dóm­ur í máli þessu myndi hafa veru­legt al­mennt gildi um skýr­ingu reglna á sviði stjórn­skip­un­ar­rétt­ar, stjórn­sýslu­rétt­ar og barna­rétt­ar. Er beiðni um áfrýj­un­ar­leyfi því tek­in til greina,“ seg­ir í niður­stöðu dóm­stóls­ins.

„Mik­il von­brigði,“ seg­ir Freyja

Freyja Har­alds­dótt­ir sagði á Face­book-síðu sinni í dag að áfrýj­un­ar­leyfi Barna­vernd­ar­stofu væru henni „mik­il von­brigði“, enda hefði dóm­ur Lands­rétt­ar verið bæði „skýr og af­drátt­ar­laus“.

„Áfrýj­un­ar­beiðnin er yfir höfuð at­hygl­is­verð og enn önn­ur af­hjúp­un á því hvað ker­fiskarl­ar (af öll­um kynj­um) geta verið hrædd­ir við fatlaða konu og hve mik­il ógn fatlaður kven­lík­ami er fyr­ir hug­mynd­ir stjórn­valda og sam­fé­lags­ins um móður­hlut­verkið,“ skrif­ar Freyja og bæt­ir því við að það sé ekk­ert annað að gera en að „gíra sig upp fyr­ir næstu at­rennu og trúa því að Hæstirétt­ur staðfesti dóm Lands­rétt­ar sem braut blað í sögu rétt­inda­bar­áttu fatlaðs fólks.“



mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert