Mál Freyju fer fyrir Hæstarétt

Hæstiréttur Íslands hefur veitt Barnaverndarstofu leyfi til þess að áfrýja …
Hæstiréttur Íslands hefur veitt Barnaverndarstofu leyfi til þess að áfrýja dómi í máli Freyju Haraldsdóttur gegn stofnuninni til Hæstaréttar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæstiréttur Íslands hefur veitt Barnaverndarstofu leyfi til þess að áfrýja dómi í máli Freyju Haraldsdóttur gegn stofnuninni til Hæstaréttar, en Landsréttur kvað upp þann dóm um miðjan síðasta mánuð að Barnaverndarstofa hefði mismunað Freyju vegna fötlunar og sneri þar með við dómi sem áður hafði fallið í héraði.

Freyja hefur farið fram á það í málinu að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála frá árinu 2016 verði felldur úr gildi, en með þeim úrskurði var staðfest sú ákvörðun Barnaverndarstofu að hafna umsókn Freyju um leyfi til þess að taka barn í varanlegt fóstur.

Fram kemur í niðurstöðu Hæstaréttar um málskotsbeiðnina að Barnaverndarstofa hafi byggt beiðni sína um áfrýjunarleyfi á því að málið hafi verulegt almennt gildi um hvernig stjórnvöldum beri að beita jafnræðisreglunni og rannsóknarreglunni og að niðurstaða málsins varði mikilvæga hagsmuni barna sem þurfi að setja í varanlegt fóstur.

Þá hafi dómur Landsréttar verið bersýnilega rangur, þar sem litið hafi verið fram hjá meginmarkmiðum barnaverndarlaga, þriðju málsgrein 76. stjórnarskrár Íslands (um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst) og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, um að hagsmunir barna skuli ávallt skipta mestu þegar teknar séu ákvarðanir um þau.

„Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa verulegt almennt gildi um skýringu reglna á sviði stjórnskipunarréttar, stjórnsýsluréttar og barnaréttar. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina,“ segir í niðurstöðu dómstólsins.

„Mikil vonbrigði,“ segir Freyja

Freyja Haraldsdóttir sagði á Facebook-síðu sinni í dag að áfrýjunarleyfi Barnaverndarstofu væru henni „mikil vonbrigði“, enda hefði dómur Landsréttar verið bæði „skýr og afdráttarlaus“.

„Áfrýjunarbeiðnin er yfir höfuð athyglisverð og enn önnur afhjúpun á því hvað kerfiskarlar (af öllum kynjum) geta verið hræddir við fatlaða konu og hve mikil ógn fatlaður kvenlíkami er fyrir hugmyndir stjórnvalda og samfélagsins um móðurhlutverkið,“ skrifar Freyja og bætir því við að það sé ekkert annað að gera en að „gíra sig upp fyrir næstu atrennu og trúa því að Hæstiréttur staðfesti dóm Landsréttar sem braut blað í sögu réttindabaráttu fatlaðs fólks.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert