Fá viku til að skila greinargerð

Grímur Sigurðsson og Hlynur Halldórsson, lögmenn Isavia.
Grímur Sigurðsson og Hlynur Halldórsson, lögmenn Isavia. mbl.is/Kristinn Magnússon

Isavia fékk í dag vikulangan frest til þess að skila greinargerð vegna aðfararbeiðni flugvélaleigufyrirtækisins ALC á hendur fyrirtækinu og verður munnlegur málflutningur í málinu að öllum líkindum fimmtudaginn 16. maí kl. 15:30 í Héraðsdómi Reykjaness.

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, færði rök fyrir því að það væri óþarfi lögum samkvæmt að veita lögmönnum Isavia frest til þess að skila greinargerðinni, þar sem allt hefði þegar komið fram í málinu. Því ætti að vera hægt að taka ákvörðun umsvifalaust.

Gunnar Aðalsteinsson dómstjóri, sem sat yfir fyrirtökunni í dag, var þó einungis þar til þess að hlaupa í skarðið fyrir Ástríði Grímsdóttur, héraðsdómara í málinu, sem er stödd erlendis. Gunnar sagði að engin ákvörðun yrði tekin á meðan svo væri.

Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia, tjáði dómnum það í dag að hann væri á leið í orlof erlendis innan skamms og því mun Grímur Sigurðsson annast næstu skref í málarekstrinum fyrir hönd Isavia.

Dómstjóri hafði þá orð á því að nú væri það tímabil runnið upp, er lögmenn taka sér leyfi til þess að fara í golfferðir. Hlynur mun þó ekki vera á leið í golf, samkvæmt því sem fram kom við fyrirtökuna.

ALC ger­ir kröfu um að Isa­via af­hendi fyr­ir­tæk­inu farþegaþotuna TP-GPA sem kyrr­sett hef­ur verið á Kefla­vík­ur­flug­velli, enda sé búið að greiða 87 millj­óna króna skuld­ir vegna henn­ar í sam­ræmi við úr­sk­urð héraðsdóms í síðustu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert