Orkupakkinn bæti samkeppnisumhverfi

Utanríkismálanefnd hittir hagsmunaaðila í dag til að ræða innleiðingu þriðja …
Utanríkismálanefnd hittir hagsmunaaðila í dag til að ræða innleiðingu þriðja orkupakkans. mbl.is/​Hari

Magnús Júlíusson, framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar, sagði á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í dag innleiðingu þriðja orkupakkans vera til þess fallna að bæta samkeppnisumhverfi á raforkumarkaði á Íslandi.

Fundað var í dag í utanríkismálanefnd Alþingis um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn, það er þriðja orkupakkanum. Til máls taka ýmsir hagsmunaaðilar. Þar voru fulltrúar allra flokka nema Miðflokksins. 

Íslensk orkumiðlun er alfarið í eigu einkaaðila og annast dreifingu orku á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað 2017 af Magnúsi Júlíussyni nefndum og Bjarna Ármannssyni.

„Það sem okkur finnst skipta máli þarna snýr að auknu eftirliti með þessum fyrirtækjum sem eru skilgreind sem einokunarfyrirtæki og þar fyrir utan aukinni áherslu á neytendavernd. Við teljum þetta til bóta. Þetta mun ýta undir samkeppni á markaði og bæta eftirlit með einokunarfyrirtæki,“ sagði Magnús.

„Það er óhætt að segja að þessi þriðji pakki byggir á fyrri pökkum, sem höfðu áhrif á markaðinn. Þessir pakkar hafa leitt til markaðsvæðingar á raforkukerfum. Opinber samkeppni er alltaf betri en opinber einokun,“ sagði Magnús, spurður um áhrif pakkans á markaðinn. „Við finnum á okkar stutta líftíma, einu og hálfu ári, að við höfum vaxið gríðarlega. Náð til okkar viðskiptum stærri fyrirtækja landsins. Samkeppnislega tiltektin er eftir á þessum markaði,“ sagði hann loks og taldi að pakkinn myndi hafa áhrif á það.

Betra að setja sínar eigin reglur

Valdimar Össurarson frá Valorku ehf. sagði að þetta gengi út á að Alþingi undirgengist ekki fyrirskipanir að utan sem það þyrfti ekki á að halda. Orkukerfi Íslendinga væri aðskilið frá Evrópu og að þannig ætti það að vera áfram. Þegar EES-samningurinn hafi verið samþykktur hafi verið gengi út frá því að Ísland yrði ekki stimpilstofnun Evrópusambandsins sem samþykkti allar tilskipanir gagnrýnislaust.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, spurði Valdimar þá hvar hann sæi framsal auðlinda í innleiðingunni?

„Við þurfum bara ekki á ACER að halda hér. Við erum með aðskilið kerfi. Ýmislegt er þar sem varðar sameiginlegan markað sem við erum ekki aðilar að. Þessar reglur henta okkur ekki. Ef við settum okkar eigin reglur miða þær við þarfir okkar,“ sagði Valdimar.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði þá hvort hann væri að leggjast gegn allri innleiðingu í heild sinni eða aðeins reglum 713 eða 714? „Höfum við tjón af EES yfir höfuð?“ spurði hann.

„Það skiptir í raun ekki máli fyrir hagsmuni þess. Ísland á langt í að komast inn á raforkumarkað ESB. Ég var fylgjandi EES á sínum tíma, gegn því að Alþingi yrði aldrei sjálfvirk stimpilstofnun sem samþykkti reglur sem ekki þyrfti á að halda hér. Nú þurfum við að staldra við. Ef menn láta eins og þá ruggum við bátnum, þá ruggum við bátnum. Ég er ekki viss um að EES-samningurinn fari í uppnám þá,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert