„Fyrir lögmenn er verðmætt að fá gott bú til skipta, ekki síst ef þeir geta ráðið þóknun sinni sjálfir.“
Þetta segir Guðjón Sigurbjartsson viðskiptafræðingur í aðsendri grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag.
Þar rekur hann skiptasögu dánarbús móðursystur sinnar og hvernig skiptastjóri tók 6,6 m.kr. þóknun úr 24 m.kr. búi.
Óskað var opinberra skipta undir árslok 2012. Í janúar 2013 tók Héraðsdómur Reykjavíkur búið til opinberra skipta og skipaði skiptastjóra. Árið 2015, lauk (fyrri) skiptum. Erfingjum þótti skiptin hafa tekið óeðlilega langan tíma og skiptakostnaður vera óeðlilega hár. Enginn lagði þó fram formlega kvörtun.
Vorið 2017 boðaði skiptastjórinn óvænt aftur til skiptafundar því að „eftir að fyrri skiptum lauk bárust frá Arion banka upplýsingar um rúmlega þriggja m.kr. verðbréfaeign“. Að sögn skiptastjórans var ástæða seinkunarinnar klúður bankans. Skiptastjórinn bætti af þessu tilefni 1,3 m.kr við skiptakostnaðinn.