Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun sameiginlega yfirlýsingu Íslands, Noregs og Liechtenstein, sem samin var á fundi í sameiginlegu EES-nefndinni þann 8. maí.
„Hlutaðeigandi ákvæði í þriðja orkupakka Evrópusambandsins hafa á engan hátt áhrif á fullveldi EFTA-ríkjanna yfir orkuauðlindum sínum eða á vald þeirra til þess að ákveða sjálf hvernig þau eru nýtt og þeim stýrt,“ segir í yfirlýsingunni.
Þessi þrjú ríki, Ísland, Noregur og Liechtenstein, mynda EFTA, Fríverslunarsamtök Evrópu, ásamt Sviss, sem er ekki aðili að EES. Þessi EFTA-ríki álykta í yfirlýsingunni að „raforkukerfi Íslands sé, eins og stendur, einangrað kerfi og ekki tengt við raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis innri markaðar ESB. Í því ljósi hefði stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar,“ að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.
Þá er ítrekað að ef yrði af samtengingu raforkukerfanna á milli landa, þá væri það Eftirlitsstofnun EFTA sem úrskurðaði um ágreiningsmál en ekki ACER, samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði. Slíkt fyrirkomulag ríkir í tilvikum Noregs og Liechtenstein.
Yfirlýsingin er, á vef stjórnarráðsins, sögð í samræmi við yfirlýsingu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar ráðherra og Miguel Arias Canete framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá því í mars.