Önnur umræða í næstu viku ekki útilokuð

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, útilokar ekki …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, útilokar ekki að frumvarpið um þriðja orkupakkann verði tilbúið í aðra umræðu í þinginu í næstu viku. mbl.is/​Hari

„Við höfum auðvitað þegar fengið til okkar fjölda gesta og eytt miklum tíma í málið. Við erum núna að leggja mat á þær spurningar sem hafa vaknað og hvort við höfum fengið svörin við þeim,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins. Hún útilokar ekki að önnur umræða um frumvarpið um þriðja orkupakkann hefjist í þinginu í næstu viku.

Áslaug er formaður utanríkismálanefndar. Utanríkismálanefnd hefur að hennar sögn nýtt síðustu daga til að hlusta á sjónarmið fjölbreytts hóps. Í gær var fundað lungann úr deginum og tekið á móti hagsmunaaðilum. Þar mættu fulltrúar allra flokka í nefndinni nema Miðflokks.

„Við erum að nýta tímann vel. Það hafa verið nefndardagar síðustu daga. Við höfum nýtt þá vel og fengið til okkar fjölda gesta til að átta okkur enn betur á málinu og svara spurningum sem vakna,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is.

Á mánudaginn á utanríkismálanefnd fund þar sem staðan verður tekin í málinu. Þar ætti að koma í ljós hvort önnur umræða um orkupakkann geti hafist í vikunni. Áslaug segir, spurð um hvort svo verði, að í dag taki nefndin stöðuna. „Við ræðum það nefndin í dag hvernig við höldum áfram með málið og hver staðan sé. Við eigum fund á mánudagsmorgun. Þar gefst okkur rými til þess að klára það sem eftir er og svo verður bara að koma í ljós,“ segir Áslaug.

Allir hefðu haft gott af fundinum

Miðflokksmenn voru sem segir hvergi sjáanlegir á fundi nefndarinnar. Gunnar Bragi Sveinsson er fulltrúi þeirra í utanríkismálanefnd. Áslaug tekur ekki afstöðu til þeirrar fjarveru en segir þó að fundurinn hefði verið öllum hollur. „Það hefðu allir haft gott af því að hlusta á þá gesti sem komu í gær. Við fengum sjónarmið frá einkareknum og opinberum fyrirtækjum og ýmsum sérfræðingum og samtökum,“ segir Áslaug.

Áslaug segir fundinn hafa verið upplýsandi. „Það var gott að fá álit Baudenbacher á efnistökum pakkans. Það varpaði betra ljósi á að sú hugmynd að hafna þessu núna er ekki góð. Það er hægt en það er öryggisventill sem þarf að fara varlega með. Og það eru engar efnislegar ástæður í þriðja orkupakkanum fyrir okkur að nota neitunina núna,“ segir Áslaug. Annars segir hún breytingar þær sem fylgja þriðja orkupakkanum fyrst og fremst felast í aukinni neytendavernd, styrktri samkeppnisstöðu á markaði og að hann auki sjálfstæði Orkustofnunar.

Innanflokkságreiningur minnkað

Áslaug segir þá að innanflokkságreininginn sem hefur verið uppi um orkupakkann í Sjálfstæðisflokkinum hafi lygnt nokkuð. „Við höfum leitast við að útvega svör við áhyggjuröddum, af því að við skiljum þær áhyggjur sem hafa verið uppi. Ef hæfa hefði verið í þessum áhyggjum þá hefðum við auðvitað haft sömu áhyggjur, en svo var ekki, og við höfum reynt að útskýra það,“ segir hún.

Ályktun frá EFTA-ríkjunum í sameiginlegu EES-nefndinni um stöðu Íslands innan samningsins er væntanleg í dag. Áslaug þekkir efni ályktunarinnar að einhverju marki og segir í henni felast áréttun á sameiginlegum þjóðarréttarlegum skilningi á sérstöðu Íslands í orkumálum, sem aftur felst í því að Ísland er eyja, án tengingar við aðra raforkumarkaði. Sá skilningur segir Áslaug að liggi þegar fyrir á milli eftirlitsmálastjóra ESB og utanríkisráðherra Íslands og að með væntanlegri ályktun EFTA sé hann enn frekar meitlaður í stein.

Í dag, föstudag, á utanríkismálanefnd fund með Hilmari Gunnlaugssyni, lögfræðingi og sérfræðingi í orkumálarétti. Svo er fundað aftur á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert