„Þið sjáið í hvað stefnir“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spyr hvort stuðningsmenn þriðja orkupakkans …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spyr hvort stuðningsmenn þriðja orkupakkans vilji helst tala um allt annað en innihald málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, þingmaður Miðflokks­ins, seg­ir greini­legt að nú stytt­ist í að þriðji orkupakki Evr­ópu­sam­bands­ins verði inn­leidd­ur. „Þið sjáið í hvað stefn­ir. Það er bara spurn­ing hvað á að kasta mörg­um drullu­kök­um áður. Því fleiri sem þær verða því betra,“ skrif­ar hann í færslu á Face­book.

Fund­ur ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar á fimmtu­dag þar sem fjallað var um þriðja orkupakk­ann hef­ur vakið tals­verða at­hygli. Carl Bau­den­bacher, fyrr­ver­andi dóm­ari við EFTA-dóm­stól­inn, var meðal fund­ar­gesta. „Mér þykir nú nokkuð sér­stakt að á þess­um tíma­punkti skuli rík­is­stjórn­in sjá ástæðu til þess að kaupa lög­fræðiálit frá út­lönd­um,“ sagði Sig­mund­ur í sam­tali við mbl.is í gær um veru Baund­en­bacher á fund­in­um.

„Oft­ar en ekki vant­ar einn, tvo eða fleiri þing­menn“

Eng­inn full­trúi Miðflokks­ins mætti á fund­inn en Sig­mund­ur seg­ir í færslu sinni að oft­ar en ekki vant­ar einn, tvo eða fleiri þing­menn á nefnd­ar­fundi og að það get­ur átt sér ýms­ar skýr­ing­ar. Þá gagn­rýn­ir hann frétta­flutn­ing RÚV um fjar­veru Miðflokks­manna á fund­in­um og spyr hann hvort það geti verið að stuðnings­menn orkupakk­ans vilji helst tala um allt annað en inni­hald máls­ins?

„RÚV hef­ur jafn­an mikl­ar áhyggj­ur þegar það tel­ur að stjórn­mála­menn eða aðrir hlýði ekki kerf­inu. Það þarf að gera slíka menn tor­tryggi­lega,“ skrif­ar Sig­mund­ur og bend­ir á að RÚV hafi þrjá daga í röð fjallað um að það hafi vantað full­trúa Miðflokks­ins á einn auka nefnd­ar­fund, sem bætt var við áður aug­lýsta dag­skrá.

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar, hef­ur þver­tekið fyr­ir að leynd hafi ríkt yfir fund­in­um og seg­ir það „afar merki­legt að formaður Miðflokks­ins ráðist nú að því að ein­hver leynd hafi hvílt yfir fundi ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar.“

Kall­ar þing­mann Vinstri grænna „áburðardreifara“

Sig­mund­ur gagn­rýn­ir einnig Kol­bein Ótt­ars­son Proppé, þing­mann Vinstri grænna, sem birti færslu á Face­book í gær­kvöldi þar sem hann fer yfir for­sæt­is­ráðherratíð Sig­mund­ar og seg­ir að hafi Sig­mund­ur ekki vitað af viðræðum um orkupakk­ann á þeim tíma hafi hann ekki verið góður for­sæt­is­ráðherra.

Sig­mund­ur kall­ar þing­mann­inn áburðardreifara og seg­ir Kol­bein „aldrei skor­ast und­an slíku frá því að hann var blaðamaður á Frétta­blaðinu og notaði ófá­ar forsíður og aðrar grein­ar til að út­skýra hvað það væri glatað hjá mér að þvæl­ast fyr­ir Ices­a­ve.“

Sig­mund­ur seg­ir þetta eina af vís­bend­ing­un­um sem birt­ast nú hver af ann­arri og að stutt sé í orkupakk­ann. Hvert til­vik sé fyrst og fremst áminn­ing um að stuðnings­menn þriðja orkupakk­ans „skorti rök og fari því í menn­ina en ekki mál­in.“


mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka