Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, segir að ljóst mál sé að tjón af völdum eldsins sem kom upp í skólanum í nótt sé mikið. Ekki er um að ræða sömu álmu og eldurinn kom upp í febrúar, en húsin séu spegilmynd hvors annars. Magnús á von á einhverri röskun á skólastarfi vegna eldsins en segir að kennt verði á mánudaginn.
Mbl.is náði tali af Magnúsi á vettvangi og lýsti hann því að eldurinn hafi komið upp í millilofti á húsi númer fjögur. Er það næsta hús við íþróttahúsið, en eldurinn í febrúar kom upp í húsi númer sjö. Magnús segir að ekki hafi gengið að ráða við eldinn og það hafi endað með að þak hússins féll, en nú sé verið að slökkva í glæðunum.
„Það er ljóst mál að það er mikið tjón og mikið vatn hefur þurft til að slökkva. Það var mikill hiti og mikill eldur og því mikið tjón, en við vitum ekki fyrr en slökkviliðið hefur lokið störfum hvað það þýðir,“ segir Magnús. Hann segist gera sér vonir að um staðbundið tjón sé að ræða og að aðrir hlutar hússins hafi sloppið. „Það er steypt milliloft en augljóst að þakið er ónýtt og þarf að skipta um það allt. Svo þegar búið er að slökkva komumst við að því hvernig stofunum hefur reitt af,“ segir hann.
„Næsta verkefni er að klára að ganga frá og svo förum við aftur af stað. Það verður aftur kennt í þessu húsi. Það drepur ekkert skólastarf,“ segir Magnús. Hann segir þetta ekki verkefni sem hann vildi vera að takast á við eða sé vanur, en að allt verði gert til að lágmarka rask á skólastarfinu. Síðast fengu skólabörn við skólann inn hjá öðrum skólum meðan unnið var að því að laga þá álmu þar sem eldurinn kom upp í febrúar. „Við eigum mjög góða nágranna hér í hverfinu og ég er viss um að við getum sótt í hjálp þeirra aftur núna. Á mánudaginn verður aftur kennt og þeir krakkar sem fara ekki í þetta hús á mánudaginn fá kennslu annars staðar í hverfinu. Vonandi náum við strax á morgun að finna eitthvað út úr því. Við látum þetta ekkert stöðva okkur heldur höldum áfram,“ segir Magnús að lokum.