Greidd verða atkvæði á þingi síðdegis um þungunarrofsfrumvarpið. Atkvæðagreiðslan ætti að hefjast á fimmta tímanum og niðurstaða hennar ætti að liggja fyrir í kvöld. Formaður velferðarnefndar sér fram á að frumvarpið nái fram að ganga.
Halldóra Mogensen er formaður velferðarnefndar þingsins. Hún sér ekki annað en að frumvarpið verði samþykkt í kvöld, segir hún í samtali við mbl.is.
Þriðja umræða um það kláraðist fyrir helgi og í henni var andstaða Flokks fólksins og Miðflokksins ljós, sem að vonum mun speglast í atkvæðagreiðslu þeirra í dag. Um ræðir þó stjórnarfrumvarp, sem þýðir að ósennilegt er að málið verði fellt.
Umdeildur þáttur í frumvarpinu hefur verið rýmkun á tímaramma þungunarrofs í 22. viku þungunar, að beiðni hinnar þunguðu án þess að gefin sé önnur ástæða fyrir því en félagsleg. Fyrir liggur breytingatillaga frá Páli Magnússyni, Sjálfstæðisflokki, sem miðar að því að lækka mörkin í 20. viku þungunar. Hún verður afgreidd á þinginu áður en gengið er til eiginlegrar atkvæðagreiðslu og verður að líkindum felld.
Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd, sem hefur haft málið til meðferðar. Ásmundur Friðriksson er einn þriggja sem skilaði inn séráliti um frumvarpið, ásamt Guðmundi Inga Kristinssyni úr Flokki fólksins og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur úr Miðflokki.