Jón Birgir Eiríksson
Drög að nefndaráliti um þriðja orkupakkann svonefnda verða lögð fyrir utanríkismálanefnd Alþingis á fundi nefndarinnar klukkan hálftíu í dag. Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokks.
„Gestakomur í málinu eru búnar og það hefur gengið mjög vel að fá svör við helstu álitaefnum og spurningum sem hafa vaknað vegna málsins. Á morgun mun ég leggja fram drög að nefndaráliti og umræðan í nefndinni mun leiða það í ljós hvort málið verður afgreitt úr nefndinni á morgun,“ sagði Áslaug Arna í gær, spurð hvenær málið verði afgreitt út úr nefndinni.
Hún segir að margt hafi skýrst vel í vinnu nefndarinnar, en fjölmargir fræðimenn og sérfræðingar hafa verið boðaðir á fundi nefndarinnar frá því málið gekk til hennar í byrjun apríl. Þá bárust nefndinni yfir fimmtíu umsagnir um málið, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.