Vonast er til þess að kríustofninn á Íslandi verði öflugri í ár heldur en undanfarið. Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segir að afkoma kríunnar á sunnan- og vestanverðu landinu hafi versnað vegna ætisskorts frá árinu 2005. Krían sé nú á válista Náttúrufræðistofnunar yfir fugla í nokkurri hættu.
Ætisskortur kríunnar var í samræmi við vandamál fjölmargra annarra sjófugla sem byggja afkomu sína á sandsíli. Stofn sandsíla beið hnekki á þessum tíma og hefur ekki rétt úr sér síðan.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Jóhann að kríustofninn hafi hins vegar rétt úr kútnum árið 2015 og kríuvarp á Seltjarnarnesi var í meðallagi það ár. Varpið var einnig gott árið 2016 en því hrakaði nokkuð árið 2017. Kríuvarpið var með svipuðu móti við Reykjavíkurtjörn en þar mistókst varpið í fyrrasumar.