Inga Sæland fordæmir vinnubrögð RÚV

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins,segir að nánast engin samfélagsumræða hafi …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins,segir að nánast engin samfélagsumræða hafi farið fram um frumvarp um þungunarrof „þó ljóst sé að það er bæði viðkvæmt og afar umdeilt.“ mbl.is/Hari

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir Ríkisútvarpið hafa brugðist hlutverki sínu sem vettvangur skoðanaskipta og umræðu í samfélaginu hvað varðar umfjöllun um frumvarp Svandís­ar Svavars­dótt­ur heil­brigðisráðherra um þungunarrof.

Frumvarpið var til umfjöllunar á þingi í síðustu viku og eftir eldfimar umræður var atkvæðagreiðslu um frumvarpið frestað til dagsins í dag og fer hún fram síðdegis.

Í yfirlýsingu sem Inga sendi frá sér fyrir skömmu segir hún að nánast engin samfélagsumræða hafi farið fram um frumvarpið „þó ljóst sé að það er bæði viðkvæmt og afar umdeilt.“

Þá gagnrýnir hún fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir viðtal sem birtist í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær þar sem rætt var við Magneu Helgadóttur sem gekkst undir þungunarrof á tuttugustu og annarri viku meðgöngu eftir að fóstrið greindist með alvarlegt tilfelli vatnshöfuðs. Magnea segir það sárt að vera kölluð morðingi af kjörnum fulltrúa á Alþingi og telur hún umræðu um þungunarrof á villigötum.

Þarna kaus fréttastofan að fjalla um jaðartilfelli harms og sársauka í því skyni að búa til réttlætingu fyrir því að skilyrðislaust verði heimilt að eyða fóstrum allt til fram að 23. viku meðgöngu,“ segir Inga í yfirlýsingunni. Hún segir jafnframt að fréttastofan hafi aldrei reynt að varpa ljósi á önnur tilfelli „ljóss og gleði þar sem fyrirburar hafa lifað og vaxið upp sem heilbrigð börn.“

Í síðustu viku sendi Inga fjölmiðlum landsins sex mynd­ir af stúlku, sem fædd­ist á 23. viku meðgöngu. Stúlk­an er núna að verða fjög­urra ára göm­ul og voru mynd­irn­ar send­ar fjöl­miðlum með „vit­und og vilja“ for­eldra stúlk­unn­ar, að sögn Ingu.

Inga segir að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi ekki gefið henni kost á neinu tækifæri til að svara fyrir þá ásökun sem kom fram í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi, að konan, þ.e. Magnea, hefði verið kölluð morðingi. „Í þessari frétt var hins vegar með ísmeygilegu myndmáli augljóslega gefið til kynna að ég væri sek um að hafa látið slík orð falla. Það hef ég aldrei gert,“ segir Inga sem fordæmir vinnubrögð fréttastofu Ríkisútvarpsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert