Hlé var gert á annarri umræðu um þriðja orkupakkann nú á sjöunda tímanum í morgun, en þingmenn Miðflokksins héldu uppi málþófi í alla nótt um þingsályktunartillöguna sem nú liggur fyrir Alþingi.
Miklar umræður og deilur hafa verið um þriðja orkupakkann undanfarin misseri, en málið var afgreitt úr utanríkismálanefnd á mánudaginn og lagt fram til síðari umræðu í þinginu.
Greiddi fulltrúi Miðflokksins í utanríkismálanefnd atkvæði gegn því að málið yrði afgreitt úr nefndinni en aðrir flokkar greiddu atkvæði með því. Fram kom í fréttatilkynningu frá Miðflokknum að ljóst væri að þröngva ætti málinu í gegnum Alþingi á sem skemmstum tíma þrátt fyrir að málið ylli mörgum áhyggjum og mikil andstaða væri við það hjá þjóðinni.
Sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður nefndarinnar, hins vegar alrangt að málið hafi með einhverjum hætti verið keyrt í gegnum utanríkismálanefnd.
Seinni umræða um frumvarpið hófst á þriðjudag og var henni haldið áfram haldið síðdegis í gær og í gegnum nóttina. Enn voru nokkrir þingmenn Miðflokksins á mælendaskrá þegar umræðum var frestað klukkan 6.18 í morgun.