Sagði stoðir alþjóðlegs samstarfs titra

Katrín sagði í svari sínu að fjölþjóðlegt samstarf hefði skilað …
Katrín sagði í svari sínu að fjölþjóðlegt samstarf hefði skilað mörgum framfaramálum í mannkynssögunni sem hún teldi „ekkert okkar myndi vilja vera án“ og nefndi sérstaklega Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. mbl.is/Hari

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að því, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þinginu í dag, hvernig Katrín ætlaði að beita sér sem forystumaður ríkisstjórnarinnar fyrir því að „úrtöluraddir um þátttöku Íslands í dýrmætu alþjóðasamstarfi“ næðu ekki yfirhöndinni með „vafasömum áróðri“.

Þorgerður spurði einnig um það hvernig Katrín myndi reyna að sjá til þess að hlustað yrði á ungt fólk, en tilefni spurninga hennar voru þau skilaboð sem 272 ungir einstaklingur fengu birt á heilli opnu í Fréttablaðinu í dag, undir slagorðinu „Ekki spila með framtíðina okkar“.

Katrín sagði í svari sínu að fjölþjóðlegt samstarf hefði skilað mörgum framfaramálum í mannkynssögunni sem hún teldi „ekkert okkar myndi vilja vera án“ og nefndi sérstaklega Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, „eitt af merkilegri plöggum stjórnmálasögunnar.“

„Ég veit ekki hvort við myndum ná jafn framsækinni niðurstöðu núna þegar við sjáum einmitt stoðir alþjóðlegs samstarfs titra vegna þeirra afla sem telja að fullveldinu sé ógnað með því að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi,“ sagði Katrín og bætti við henni hefði þótt Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við lagadeild HÍ varpa fram góðri spurningu, í grein sem hann ritaði í Kjarnann í vikunni, um það hvort Íslendingar óttuðust eigið fullveldi.

„Við sem lítil þjóð, en um leið þjóð sem kann að meta sjálfstæði sitt líklega betur en mjög margar aðrar þjóðir, af því saga þess er ekki löng, við fögnuðum 100 ára afmæli fullveldis hér í fyrra. Við vitum hversu miklu máli það skiptir að vera í slíku samstarfi á jafnræðisgrundvelli en tryggja um leið framfarir, sem ekki bara eru hér heima, heldur líka að heiman. Og það er auðvitað það sem þetta unga fólk kallar eftir, það er rétturinn til þess að geta lifað og starfað og búið hvar sem er,“ sagði Katrín.

Hún bætti síðan við í síðara svari sínu til Þorgerðar að þessi hópur sem hefði komið fram í auglýsingunni í dag væru af þeirri kynslóð sem hefði alist upp við það að það sé eðlilegt að geta farið hvert sem er, að minnsta innan EES-samstarfsins, til að leita náms eða vinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert