Stjórn Persónuverndar komst að þeirri niðurstöðu í dag að Bára Halldórsdóttir hefði brotið af sér þegar hún tók upp samtal þingmanna Miðflokksins á Klaustri í lok nóvember á síðasta ári. Henni var ekki gert að greiða sekt.
Bára afhenti fjölmiðlum upptökurnar en greint var frá niðurstöðu Persónuverndar á vef Viljans. Úrskurðurinn verður ekki birtur á vef Persónuverndar fyrr en á morgun.
Klaustursmálið hefur verið til umfjöllunar Persónuverndar síðan um miðjan desember. Lögmaður þingmanna Miðflokksins krafðist þess að rannsakaði yrði hver hefði staðið að upptökum á samtali þingmannanna á Klaustri.
Málið tafðist eftir að þingmennirnir fóru með það fyrir héraðsdóm og síðar Landsrétt, þar sem kröfum þeirra var hafnað.
Stjórn Persónuverndar hafnaði beiðni lögmanns þingmannanna í síðasta mánuði þar sem óskað var eftir því að fá frekari upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning Báru, símtöl og smáskilaboð.
Í úrskurðinum kom fram að Persónuvernd telji sig ekki hafa heimild til öflunar upplýsinga frá fjarskipta- og fjármálafyrirtækjum vegna máls sem varði fyrirtækin ekki, heldur Báru.
Einnig telur stjórn Persónuverndar að atvik málsins verði talin nægilega upplýst til að Persónuvernd geti komist að efnislegri úrlausn.