Ekki hagkvæm lausn á sorphirðu

Myndin af urðunarsvæðinu sem fór í dreifingu á samfélagsmiðlum.
Myndin af urðunarsvæðinu sem fór í dreifingu á samfélagsmiðlum. Skjáskot/Rakel Steinarsdóttir

„Mitt mat er það að staðan er ekki góð. Það er greinilegt að þarna erum við með opna hauga,“ segir Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, sem gerði sér í dag ferð að urðun­ar­stöðinni í Fífl­holti á Mýr­um til að kynna sér aðstæður í kjölfar mynda sem dreift var á samfélagsmiðlum í vikunni. Ljóst sé þó að vilji sé hjá stjórnendum til að bregðast við.

„Okkur var svolítið brugðið í gær þegar við sáum þessar myndir sem mbl.is sýndi og sem voru í dreifingu á samfélagsmiðlum,“ sagði Tryggvi í samtali við mbl.is og kvað ástæðuna ekki síst liggja í þeirri áherslu Landverndar að koma eigi í veg fyrir plastmengun í umhverfi. „Það er því náttúrulega slæmt ef fyrirtæki í opinberri eigu eiga ríkan þátt í því að koma plasti í umhverfið. Þess vegna fannst okkur fannst mikilvægt að bregðast við þessum fréttum.“

Tryggvi fékk fullt aðgengi að urðunarstöðinni, sem annars er lokuð almenningi. Hann segir virðingarvert að Kristinn Jónasson, stjórnarformaður og bæjarstjóri Snæfellsnesbæjar, Gunnlaugur Auðunn Júlíusson sveitastjóri Borgarbyggðar og Hrefna B. Jónsdóttir framkvæmdastjóri urðunarstöðvarinnar, hafi tekið þar á móti sér. „Það vantaði ekki að menn tóku þessu vel og hafa skilning á því að Landvernd sem stór umhverfisverndarsamtök þurfa að bregðast við.“

Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, segir að finna þurfi lausnir á …
Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, segir að finna þurfi lausnir á sorphirðu og urðun til langs tíma.

Hægt að gera ýmislegt til að bæta ástandið

„Ég notaði líka tækifærið til að heimsækja einn nágranna urðunarstöðvarinnar sem lýsti því hvernig málið blasir við frá sjónarhóli nágranna,“ segir Tryggvi. „Mitt mat er það að staðan er ekki góð. Það er greinilegt að þarna erum við með opna hauga. Það er skilyrði sem við búum við og þetta er kerfislægur vandi, sem ekki er hægt að segja að sé sök þeirra sem reka þennan stað.“

Fram kom í sam­tali mbl.is við fram­kvæmda­stjóra urðun­ar­stöðvar­inn­ar í fyrradag að stöðin vinni í sam­ræmi við lög um meðhöndl­un úr­gangs nr. 55/​​2003 og segir Tryggvi, þetta vera löggjöfina og umbúnaðurinn sem þessum málum sé búið á Íslandi.

„Það er hins vegar alveg augljóst að það þarf að gera betur í því fyrir framtíðina, ekki síst ef við ætlum að ná markmiðum sem við höfum sett í samstarfi okkar við Evrópusambandið.“

Tryggvi kveðst engu að síður telja að ýmislegt sé hægt að gera til að bæta ástandið. „Ég var upplýstur um hvað er gert nú þegar og það er ýmislegt.“ Þannig hafi til að mynda flokkar verið á ferðinni í gær að tína upp rusl fyrir utan og því hafi ekkert rusl verið sýnilegt þar sem hann fór um. „Það er líka áhugi á að gera betrumbætur inni á svæðinu til að draga úr þessum óþægindum.“

Ekki hagkvæm lausn á sorphirðu almennt

Góður vilji og þekking virðist því vera til að bregðast við. Segir Tryggvi Landvernd líklega munu bæta nokkrum ábendingu við til fyrirtækisins sem rekur sorpmóttökuna. „Við munum ræða það betur á næstunni. Það eru nokkur atriði sem hafa komið upp í þessari skoðun sem þarf að koma á í framtíðinni,“ segir hann.

Tryggvi segir vissulega þurfa að leysa þessi aðkallandi vandamál, mikilvægast sé þó að horfa til langs tíma. Nefnir hann sem dæmi að ólíkar reglur gildi hjá sveitarfélögum og eins séu fyrirtækin sem sinni sorphirðu og urðun mörg. „Þetta er líklega ekki hagkvæm lausn sem við höfum fundið á sorphirðu almennt,“ segir hann og kveðst vita til þess að umhverfisráðuneytið sé með þessi mál til skoðunar.

„Slíkar breytingar taka tíma og við höfum skilning á því, en fyrsta skrefið er alla vegna að koma með hugmyndina á borðið. Til lengri tíma litið þá getum við hins vegar ekki verið að grafa svona stóran hluta af íslensku sorpi niður í jörðina. Þetta eru verðmæti og við eigum að vera með þetta í hringrás í miklu meira mæli.“

Stóra málið sé að finna lausn sem færi þessi mál í betri farveg til lengri tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert