Þriðja kvöldið í röð stefnir í að næturumræður fari fram á Alþingi um þriðja orkupakkann. Síðustu sólarhringa hafa nær eingöngu þingmenn Miðflokksins haldið ræður í síðari umræðu um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um þriðja orkupakkann og þessa stundina eru eingöngu þingmenn Miðflokksins á mælendaskrá.
Þingmenn flokksins, ásamt þingmönnum Flokks fólksins, þvertaka fyrir að um málþóf sé að ræða en þingmenn annarra flokka, sem styðja þingsályktunartillöguna, eru undirbúnir fyrir aðra langa nótt í þingsalnum, þar á meðal Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar.
Miðflokksmenn eru farnir að tala um hvað kostar í sund. Klukkan er ekki orðin níu, þetta verður löng nótt. 😴
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) May 22, 2019
Þingfundi var slitið á níunda tímanum í morgun, en þá hafði umræða um þriðja orkupakkann staðið í 19 klukkustundir, en þingfundur hófst klukkan 13.30 í gær.
Þingfundur hófst aftur í dag klukkan 15 og samtals hefur þriðji orkupakkinn því verið ræddur í tæpar 50 klukkustundir. Þar af hafa þingmenn Miðflokksins talað í um fjörutíu klukkustundir.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði í dag að hann hafi ekki hugsað sér að beita þeirri heimild að stöðva umræðuna. Forsætisnefnd ákvað í dag að bæta við þingfundum síðdegis á fimmtudag og föstudag ef á þarf að halda, þar sem fjölmörg önnur mál eru enn á dagskrá þingsins fyrir sumarfrí.
Umræðan um þriðja orkupakkann mun halda áfram á meðan þingmenn óska eftir að taka til máls, en þá verður hægt að greiða atkvæði um þingsályktunartillöguna.